Ungur verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Blönduósi :: Ævintýri og áskoranir

Þuríður Gísladóttir, verslunarstjóri. Aðsend mynd.
Þuríður Gísladóttir, verslunarstjóri. Aðsend mynd.

Samkaup hf. rekur yfir 60 verslanir víðsvegar um landið og spanna þær allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana en helstu verslunarmerki þess eru: Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Á heimasíðu Samkaups kemur fram að hjá félaginu starfi um 1400 starfsmenn í rúmlega 700 stöðugildum.

„Við kappkostum að bjóða gott úrval, lágt verð og ferskar vörur á hverjum stað. Kjörbúðin gerir viðskiptavinum sínum kleift að versla daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnishæfu verði. Vikulega bjóðum við upp á girnileg og fjölbreytt tilboð og spannar úrvalið allt frá þurrvöru yfir fersk vöru,“ segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Verslanir Kjörbúðarinnar eru staðsettar víðar á landinu og þjónustar ein þeirra íbúa á Blönduósi. Fyrr á árinu var auglýst eftir nýjum verslunarstjóra á Blönduósi og ung kona ráðin, Þuríður Gísladóttir, sem flutti á staðinn gagngert til að sjá um rekstur verslunarinnar.

 

Feykir hafði samband við Þuríði og forvitnaðist lítillega um hennar hagi.

„Ég er 24 ára, fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Þar bjó ég fyrstu tuttugu ár ævi minnar áður en ég fluttist á Reykjanes með móður minni. Mér hefur alltaf fundist skemmtilegt að vinna og sótti um vinnu um leið og ég hafði aldur til. Vinnan mín er eitt af mínum stærstu áhugamálum svo að það er stór hluti af mínu lífi,“ segir Þuríður.

Nokkrum mánuðum eftir að hún flutti á meginlandið fékk hún vinnu hjá Samkaup í Krambúðinni í Keflavík en tveimur árum síðar fluttist hún vestur á firði til að taka við sem verslunarstjóri í Kjörbúðinni í Bolungarvík.

„Ég flutti til Blönduóss í lok maí þannig að ég er búin að vera hér í nokkra mánuði. Eftir rúmt eitt og hálft ár fyrir vestan bauðst mér að taka við Kjörbúðinni hér á Blönduósi. Það er frábært tækifæri til að vaxa í starfi enda er þessi verslun stærri og á öðru landsvæði og fylgja því ákveðnar áskoranir. En það var líka staðsetningin sem ýtti undir ákvörðunina enda er ég miklu nær vinum og vandamönnum,“ útskýrir hún.

Náttúran heillar

Þuríði finnst gaman að vinna í verslun og segir starfið bjóða upp á ýmis ævintýri. „Það eru alls konar áskoranir sem fylgja því en það er bara partur af fjörinu. Maður keppist við að reyna að læra á fólkið og aðlaga þjónustuna að því eins og hægt er. Ég kann rosa vel við mig hér enda er ég mikil smábæjarmanneskja og kann að meta kyrrðina og nándina sem fylgir smærri bæjarfélögum. Margir hér hafa tekið mjög vel á móti mér og er ég þakklát fyrir það.“

En hvað skyldi verslunarstjórinn gera utan vinnunnar?

„Þegar ég er ekki að vinna má yfirleitt finna mig á sófanum að spila tölvuleiki eða að horfa á myndir með vinum mínum í gegnum netið. Undanfarið hafa það reyndar verið skólabækurnar sem ráða frítíma mínum þar sem ég var að byrja í námi við Verslunarskóla Íslands. Ég er mikið náttúrubarn þannig að þegar veður leyfir á ég það til að kíkja á rúntinn og skoða fuglalífið eða rölta í fjörunni.“

Þuríður viðurkennir að vera ein af þeim sem hafi haft sjoppuna sem eina áningarstaðinn á ferð sinni um þjóðveginn á norðurleiðinni og lítið sem ekkert litið í kringum sig. Hún segir náttúruna og umhverfið á Blönduósi og nærsveitum hafa komið sér skemmtilega á óvart, þegar hún loksins gaf sér tíma til að virða það fyrir sér.

Áður birst í 36. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir