Vefur keppnissögunnar ofinn - Kristinn Hugason skrifar

Frá Landsmóti á Vindheimamelum árið 2006. Mynd: Árni Gunnarsson.
Frá Landsmóti á Vindheimamelum árið 2006. Mynd: Árni Gunnarsson.

Í síðustu grein minni hér í blaðinu sagði m.a. frá merkilegum kappreiðum í Bolabás; hinum svokölluðu konungskappreiðum sem fram fóru sem hluti af dagskrá Alþingishátíðarinnar á Þingvöllum 1930. Hestamannafélagið Fákur í Reykjavík stóð fyrir kappreiðunum þar sem bæði var keppt í stökki og skeiði. Mikill stórhugur ríkti við undirbúninginn. Heildarupphæð verðlaunafjár var sú hæsta sem þekkst hafði á Íslandi eða kr. 3.700,- sem er að núvirði rétt rúm ein milljón króna. Útmældur var 400 m langur og 25 m breiður skeiðvöllur og veðbanki starfaði. Margt kom þó upp á við framkvæmd kappreiðanna – sumt svo innilega íslenskt ef svo má segja.

Nafnið konungskappreiðar á þá skýringu að þáverandi þjóðhöfðingi Íslands, Kristján konungur X sem var mikill hestamaður, var heiðursgestur á kappreiðunum og gaf forláta silfurbikar sem veittur var sem verðlaun.

Keppt var bæði í stökki og skeiði allt frá upphafi skipulegra kappreiða hér á landi en ekki er sú saga löng í alþjóðlegum samanburði. Skeiðkappreiðar, eins og þær eru stundaðar hér á landi, er séríslensk keppnisgrein og sú elsta. Þetta er auðlind sem við þurfum að hlúa mun betur að en við höfum gert og kem ég betur að því aftur síðar í greinaflokknum.

Þróun keppnisgreina á kappreiðum landsmótanna
Fyrsta landsmótið var haldið á Þingvöllum 1950. Keppt var í 250 m skeiði og 350 m stökki. Sigurhesturinn í hvorri grein fékk á núvirði verðlaun að upphæð rétt um 170 þúsund. Alls voru veitt fimm verðlaun, auk flokkaverðlauna. Veðbanki starfaði.

Annað landsmótið var haldið á Þveráreyrum í Eyjafirði 1954, keppnisflokkar voru hinir sömu og á mótinu 1950 nema að bætt var við 300 m stökki. Verðlaunaféð var svipað og á Þingvöllum.

Þriðja landsmótið var haldið við Skógarhóla í Þingvallsveit 1958, fór það fram með mjög sambærilegum hætti og fyrstu tvö mótin varðar. Keppt var í 250 m skeiði, 300 og 400 m stökki. Veitt voru verðlaun í öllum flokkum fyrir fimm efstu sætin en settar kröfur um lágmarkstíma, metverðlaunum var heitið að auki. Hæstu verðlaunin voru fyrir 250 m skeiðið og námu þau rúmum 160 þúsundum að núvirði.

Fjórða landsmótið fór einnig fram við Skógarhóla 1962. Þar var keppt í 250 m skeiði og 300 og 800 m stökki. Hæstu verðlaunin voru þar veitt í 800 m stökkinu að núvirði rétt tæp 274 þúsund, alls voru veitt verðlaun fyrir fimm efstu sætin eftir tímum, einnig voru veitt aukalega verðlaun að sömu upphæð fyrir fyrsta hest í úrslitahlaupi. Þannig gat sami hestur nælt sér í rúma hálfa milljón í einni og sömu keppninni.

Fimmta landsmótið fór fram á Hólum í Hjaltadal 1966. Keppt var í sömu greinum og áður; 250 m skeiði og 300 og 800 m stökki. Til marks og vegsemd kappreiðanna er að úrslitin voru lokaatriði mótsins. Verðlaun voru umtalsverð eins og fyrr þó ekki eins há, reiknað á núvirði, eins og á mótinu á undan þó krónutalan væri söm og jöfn. Verðbólgudraugurinn var nú vaknaður og raunar fyrir nokkru.

Sjötta landsmótið var haldið að Skógarhólum 1970. Kappreiðarnar héldu sessi sínum og á þessu móti var auk 250 m skeiðs og 300 og 800 m stökks, keppt í brokki í fyrsta sinn, var það 1500 m sprettur. Peningaverðlaun vor veitt fyrir þrjú efstu sætin í öllum flokkum, hæstu verðlaunin voru í skeiðinu og 800 m stökki rétt í tæp 263 þúsund.

Sjöunda landsmótið var haldið á Vindheimamelum í Skagafirði 1974, var þetta fyrsta landsmótið sem haldið var á Vindheimamelum. Kappreiðarnar stóðu í blóma og voru úrslitasprettirnir lokaatriði mótsins. Keppt var í sömu greinum og á mótinu á undan. Veitt voru peningaverðlaun fyrir þrjú efstu hrossin í öllum kappreiðaflokkunum. Hæst voru verðlaunin í skeiðinu; rúm 308 þúsund á núvirði.

Áttunda landsmótið var haldið við Skógarhóla 1978 og var síðasta mótið sem haldið var þar. Nú voru hestaíþróttir í fyrsta sinn á dagskrá landmóts, þ.e. töltkeppni og gæðingaskeið. Kappreiðar voru með miklum blóma á góðum stað á dagskránni. Keppt var í 250 m skeiði, 250, 350 og 800 m stökki og 1500 m brokki. Peningaverðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki. Hæstu verðlaunin voru fyrir sigur í skeiðinu, námu þau rúmum 170 þúsundum á núvirði. Heildarupphæð verðlaunafjár á mótinu nam um 1,2 milljónum á núvirði.

Níunda landsmótið var haldið á Vindheimamelum 1982. Kappreiðarnar voru enn í sókn, bætt var við nýrri grein í skeiðið; 150 m skeið sem átti mikla framtíð fyrir sér en lengi höfðu hugsjónamenn barist fyrir að fá þessa grein inn eða allt frá því fyrir 1950. Í stökki var keppt í þremur vegalengdum: 250, 350 og 800 m og í 300 m brokki. Lokaatriði mótsins voru seinni sprettirnir í skeiði og brokki og úrslitasprettir í öðrum hlaupagreinum. Peningaverðlaun voru fyrir þrjú efstu sætin í öllum greinum. Á núvirði nemur heildarupphæð verðlaunafjár um 2,6 milljónum, hæstu sigurlaunin voru sem jafnan í 250 m skeiðinu og námu þau á núvirði rétt um 286 þúsundum.

Tíunda landsmótið fór fram á Gaddstaðaflötum við Hellu 1986. Kappreiðarnar voru öflugar (sex keppnisflokkar; í skeiði 150 og 250 m, í stökki 250, 350 og 800 m og 300 m brokk). Seinni hluti kappreiðanna var lokaatriði mótsins. Veitt voru peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin í öllum flokkum, í heild sinni á núvirði rétt um 1,4 milljónir, hæstu sigurlaunin voru sem fyrr í 250 m skeiði, að núvirði 202 þúsund rúmlega.

Ellefta landsmótið var haldið á Vindheimamelum í Skagafirði 1990. Peningaverðlaun héldust inni í kappreiðunum og heitið var sérstökum metverðlaunum með tvöföldun sigurupphæðarinnar að því tilskyldu að metið stæði að móti loknu. Peningaverðlaun fyrir árangur í kynbótum voru hins vegar ekki lengur veitt, (voru síðast greidd út á landsmóti 1982). Heildarverðlaunafjárhæðinn nam tæpum 1,4 milljónum á núvirði. Eins og áður voru hæstu verðlaunin fyrir sigur í 250 m skeiði, rétt tæp 225 þúsund að núvirði sem þýðir að sigur og um leið Íslandsmetsprettur hefði gefið um 450 þúsund í aðra hönd.

Tólfta landsmótið var haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu 1994. Kappreiðahlutinn hélt enn sjó hvað fjölda keppnisgreina varðar. Heildarupphæð verðlaunafjár var að núvirði rétt tæpar 1,3 milljónir kr., hæst sem fyrr í 250 m skeiði 221 þúsund tæpar með áheiti um tvöföldum yrði met sett sem stæði að móti loknu.

Þrettánda landsmótið fór fram á Melgerðismelum í Eyjafirði 1998. Keppnisgreinum í stökki var fækkað niður í eina, 300 m stökk og brokkið fellt niður. Heildarupphæð verðlaunafjár var á núvirði rétt rúm 806 þúsund, í 250 m skeiðinu gaf sigursætið í núvirði rétt tæp 205 þúsund, auk metverðlauna, sem heitið var, að upphæð tæplega 256 þúsund á núvirði.

Fjórtánda landsmótið var haldið í Reykjavík daganna 4. til 9. júlí 2000. Með þessu móti urðu þau þáttaskil að mótin skyldu nú haldin með tveggja ára fresti. Augljós afturför var að koma í ljós hvað þátttöku í stökki varðaði en þó var keppt í 300 og 800 m stökki, auk skeiðgreinanna hefðbundnu.

Hvað landsmótið árið 2000 varðar er engar upplýsingar að finna hvað upphæð verðlaunafjár varðar en fyrir liggur að þau voru veitt og þá á grunni úrslitaspretta en ekki bestu tíma eins og venja hafði skapast um, þótt hitt hefði verið tíðkað fyrr meir. Hestamannafélagið Fákur sá alfarið um kappreiðarnar og hafði félagið líka séð um þær á LM98. Á báðum stöðum starfaði veðbanki en hann hafði þá ekki verið stafræktur um langt árabil á landsmótum en á þessum árum stóð Fákur fyrir veðreiðum á félagssvæði sínu sem sendar voru út í sjónvarpi. Kappreiðastarfsemin stóð því með töluverðum blóma, þó að þreytumerki sæust hvað stökkgreinar varðaði og brokkkappreiðar horfnar en þær höfðu raunar aldrei náð sér verulega á skrið. Nýjungar ruddu sér og til rúms um aldamótin: Startbásar tóku við af ræsingu á línu og rafræn tímataka var tekin upp.

Fimmtánda landsmótið var haldið á Vindheimamelum 2002. Á þessu móti var í fyrsta sinn keppt í 100 m flugskeiði en hvað stökkgreinarnar varðar var einungis keppt í 300 m stökki. Mikil þátttaka var í skeiðgreinunum, einkum 100 og 150 m en lítil í stökkinu. Veðbanki starfaði en engin peningaverðlaun voru veitt á mótinu, skv. ákvörðun Landsmóts ehf. sem tekið var við framkvæmd landsmótanna, og voru þau þar með úr sögunni sem fastur liður.

Sextánda landsmótið var haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu 2004. Nú hurfu stökkgreinar endanlega af dagskránni og tekið var upp kerfi fyrirfram ákveðins fjölda keppnishrossa í tölti og skeiðgreinum í stað lágmarkseinkunnar eða -tíma til að öðlast þátttökurétt. Barátta fyrir bættum hag kappreiðanna skilaði því að þeim var fundinn betri staður í dagskránni. Flugskeiðið varð einnig hluti af kvöldvökudagskrá laugardagsins.

Lokaorð
Á öllum landsmótum frá 2004 hefur framkvæmd kappreiðanna verið með líkum hætti. Keppt hefur verið í skeiðgreinunum þremur, fyrirfram ákveðinn fjöldi keppnishrossa og vitaskuld hvoru tveggja rafræn tímataka og rásbásar hagnýttir. Þær hafa þó frekar en ekki verið hornreka í dagskránni, þótt vitaskuld sýnist sitt hverjum þar um, altént eru þær ekki í þeim miðpunkti og var í gamla daga. Mótin hafa enda margfaldast að umfangi og lengst mjög þó að áhorfendum hafi fækkað mikið og afkoma mótanna þar með versnað.

Utanumhald kappreiðanna hefur hins vegar verið í góðu lagi, enda er skeiðíþróttin ekki í neinni lægð nema að síður sé. Í dagskrá landsmóta er þannig ekki lengur talað um kappreiðar heldur er liðurinn kallaður skeiðkeppni og starfað hafa sérstök skeiðfélög sem haldið hafa utan um kappreiðahaldið, bæði í sérstökum mótaröðum og stundum einnig á landsmótum. Engar tilraunir hafa þó verið gerðar til veðstarfsemi. Peningaverðlaun heyra og sögunni til, sem er miður.

Á fyrri árum voru peningaverðlaun við lýði víðar en bara á landsmótum, þau voru iðulegast bæði á fjórðungsmótum og öðrum stórmótum, drógu þau iðulega keppendur langt að sem kepptu þá oft í fleiri greinum en bara kappreiðunum og auðguðu þannig mótin sem urðu fjölsóttari en þá þótti sjálfsagt að borga sig inn á mót. Mikil reisn var um árabil hvað þetta varðar á mótum á Vindheimamelum. Eitt dæmi um umfang verðlaunafjár á fjórðungsmóti má taka af handahófi, sem er fjórðungsmótið á Melgerðismelum árið 1983, þar nam heildarupphæð verðlaunafjár á núvirði rétt um 1,1 milljón og sigurlaunin í 250 m skeiði rétt tæpum 135 þúsundum.

Á seinni árum hafa stöku sinnum verið veitt peningaverðlaun, t.d. var myndarlega að því staðið um skeið á haustmótum Andvara, svokölluðum Metamótum og alveg glæsilega á veðreiðum Fáks á seinni hluta tíunda áratugsins sem fyrr voru nefndar. Annað hefur verið tilfallandi, oft ekki um neinar upphæðir að marki að ræða eða mjög torsótt áheit. Stöku sinnum hafa menn og freistast til að hafa peningaverðlaun í öðrum greinum en kappreiðum sem í raun er vonlaust, í ljósi skýlausrar kröfu um að forðast möguleika á hvers konar spillingu.

Í næstu greinum verður þessi sami vefur ofinn áfram.
Kristinn Hugason.

Áður birst í 37. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir