Vegið ómaklega að lögreglunni | Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
Fullyrðingar Kristins Hrafnssonar hjá Wikileaks um að auðmenn ráði öllu sem þeir vilji á Íslandi og að lögreglan hér á landi þjóni þeim standast enga skoðun. Nægir í því sambandi að benda á þann fjölda auðmanna sem rannsakaðir hafa verið af lögreglunni, sóttir til saka og sakfelldir frá bankahruninu haustið 2008. Enn eru slík mál í gangi í dómskerfinu meira en 16 árum síðar og verið árum saman. Vægast sagt ómaklega er vegið að lögreglunni í þessum efnum.
Tilefnið er það að varðstjóri hjá lögreglunni hefur verið sakaður um að hafa þegið greiðslur fyrir að taka að sér njósnir sem athafnamaðurinn Björgólfur Thor Björgúlfsson er sagður hafa fjármagnað og beinzt að einstaklingum í málaferlum gegn honum. Hefur lögreglumaðurinn verið leystur frá störfum á meðan málið er rannsakað en ljóst er að hann tók að sér umrætt verk án vitundar yfirmanna sinna. Kýs Kristinn að dæma alla lögregluna fyrir vikið.
Væntanlega hefði Björgólfur Thor ekki þurft að fjármagna slíkar njósnir úr eigin vasa, ef rétt reynist, ef það væri á rökum reist að auðmenn eins og hann hefðu lögregluna í vasanum. Hvað þá að þurft hefði að ráða til þess einhvers konar málaliða; starfandi lögreglumann án vitneskju yfirmanna hans auk fyrrverandi lögreglumanna. Þá hefði væntanlega verið hægt að leita beint til lögreglunnar. Slíkar ásakanir í garð hennar standast alls enga skoðun sem fyrr segir.
Vegna skorts á málefnalegum rökum kýs Kristinn að tengja málið við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á svonefndu byrlunarmáli. Vill hann meina að útgerðarfyrirtækið Samherji hafi þar fengið „auðsveipa þjónustu“ hjá lögreglunni til „pólitískra ofsókna gegn blaðamönnum.“ Hins vegar er deginum ljósara að full ástæða var til þess að rannsaka málið í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem settar voru fram um byrlun og þjófnað á farsíma þess sem byrlað var.
Rannsókn byrlunarmálsins tók nokkuð langan tíma einkum vegna þess að blaðamennirnir sem höfðu stöðu brotaþola í því, sem er hugsað þeim sem eru til rannsóknar til varnar enda fylgja því ákveðin mikilvæg réttindi, neituðu ítrekað að mæta í skýrslutöku. Með sömu rökum og Kristinn teflir fram, ef rök skyldi kalla, hafa áralöng málaferli ákæruvaldsins gegn ófáum auðmönnum í kjölfar bankahrunsins væntanlega verið pólitískar ofsóknir gegn þeim.
Vitanlega eiga allir borgara landsins að sitja við sama borð gagnvart ákæruvaldinu. Vonandi geta allir tekið undir það að ef borgari kærir til lögreglunnar að honum hafi verið byrluð ólyfjan sem hefði sett hann í lífshættu á meðan símanum hans hafi verið stolið til þess að afrita hann ætti hún að rannsaka málið. Það væri fyrst ámælisvert ef lögreglan hefði ekki rannsakað málið á þeim forsendum að meintur brotaþoli væri starfsmaður tiltekins fyrirtækis.
Málið var loks látið niður falla þrátt fyrir að ljóst þætti að verknaðurinn hefði átt sér stað. Ekki tókst hins vegar að sýna fram á það hver hefði afritað símann, hvernig og hver hefði afhent fjölmiðlum gögn úr honum að sögn lögreglunnar. Væri það rétt að auðmenn hefðu lögregluna í vasanum og réðu því sem þeir vildu hefði rannsókn málsins varla verið hætt. Lögreglunni ber einfaldlega skylda til þess að rannsaka mál sem kærð eru óháð því hverjir eigi í hlut.
Hjörtur J. Guðmundsson
Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.