Veiðin almennt dræmari en í fyrra
Veiði í húnvetnskum ám er almennt lakari en hún var á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir góða byrjun. Nú hafa 749 laxar veiðst í Miðfjarðará sem er, samkvæmt tölum frá Landssambandi veiðifélaga á angling.is, þriðja aflahæsta á landsins og í Blöndu hafa veiðst 514 laxar en hún vermir sjöunda sætið. Á sama tíma í fyrra var veiðin í Miðfjarðará 1077 laxar og 1300 í Blöndu.
Laxá á Ásum kemur næst, í tólfta sæti, en þar hafa 242 laxar skilað sér á land og hefur hún þá sérstöðu að vera eina áin sem skilar fleiri löxum en á sama tíma í fyrra þegar þeir voru 163. Fast á hæla henni, sú þrettánda á listanum, kemur Víðidalsá með 230 laxa miðað við 331 á síðasta ári.
Í Vatnsdalsá hafa veiðst 150 laxar en 292 í fyrra, í Hrútafjarðará og Síká 25 og í Svartá 11 en í tveimur síðastnefndu ánum hófst veiði ekki fyrr en um síðustu mánaðamót.