Veitum frelsi

Bændur hafa átt við ramman reip að draga um áratuga bil. Ferðaþjónustan var lyftistöng um stundarsakir en margir sitja þó eftir með sárt ennið þar sem innviðauppbygging er kostnaðarsöm og ekki er hægt að þjónusta fleiri, hækka veð eða selja fyrirtækið þegar viðskiptavinirnir eru erlendis. Ferðamennirnir halda sig heima. Það er gríðarlegur aðstöðumunur milli búgreina og mjólkurframleiðendur hafa með elju sinni náð að halda taktinum með þróuninni og sjálfvirknivætt rekstur sinn að hluta.

Það er ekki sömu sögu af sauðfjárrækt að segja. Erfiðlega gengur að selja ferðamanninum hugmyndina að lambakjöt sé til jafns í gæðum við kjúkling og nautgripi. Íslendingar sjálfir hafa minnkað lambakjötsneyslu síðastliðna áratugi um allt að 60%. Það kunna að vera margþættar skýringar á því en ekki hjálpar að kjöt er dýr neysluvara. Hvernig má vera að ráðherra telji bændur stundi sauðfjárrækt sem áhugamál. Fáir sauðfjárbændur taka nafnbótinni fagnandi.

En augljóst er að ekki drýpur smjörið af hverju strái, raunar er það þannig hjá flestum að búskapurinn einn og sér dugar ekki til rekstrar. Ekki er það ábúendum sjálfum að kenna heldur stöðugu fálmi stjórnvalda í leit að skilvirkari ferlum án þess að breyta nokkru. Afurðarstöðvarnar borga sífellt minna fyrir dilkana. Við framleiðum of mikið og það er selt úr landi á undirverði með litlum ábata til bænda sjálfra. Fyrir skömmu var útlit fyrir skort á lambahryggjum, þegar betur var að gáð þá kúventist staðan þegar möguleikinn opnaðist að frekari innflutningur yrði heimilaður.

Samhliða þessu setur landbúnaðarráðuneytið niðurnjörvaða reglugerð um lítil matvælafyrirtæki og hefðbundin matvæli sem múlbindur litlar kjötvinnslur til þess að vinna einungis um þrjúhundruð kíló af kjöti á viku ellegar falla undir sömu reglur og iðnaðarsláturhús. Í slátrun er leyfilegt að taka hundrað lömb á dag en til samanburðar tekur stórsláturhús eitthvað í kringum þrjúþúsund dilka á dag. Ekki skánar það svo við að ekki má stykkja meira en tíu tonn á ársgrundvelli í sama rými og slátrun fer fram. Dýralækni þarf svo að kalla til með 48 klukkustunda fyrirvara til þess að blessa innmatinn sem skal rekjanlegur til hvers skrokks. Sérstaklega er tekið á að kamarinn skuli vera innan hundrað metra frá vinnslunni. Er ekki komið nóg af reglum þegar ráðuneytið er með sérstaka klausu um hvar ábúendur jarða skulu hægja sér í vinnunni ?

Því legg ég til að þessi reglugerð verði felld niður og heimaslátrun færð á ábyrgð bænda. Skortur á dýralæknum verði leystur. Innviðir til förgunar hættulegra vefja verði tryggðir og fjármagnaðir, bændum gert kleift að slátra, stykkja, dreifa og selja sína vöru hvernig sem þeim hentar. Verði þessi vara sérstaklega upprunamerkt og bændur sjálfir taki ábyrgð á því að hún standist kröfur til manneldis. Hér hefur verið starfræktur svartur markaður í áratugi fyrir dilkakjöt og í mörgum frystikistum landsmanna er að minnsta kosti hálfur skrokkur sem þaðan kemur.

Við gætum meðal annars horft til Færeyja sem leyfa heimaslátrun en banna söluna á vörunni í almennum stórmörkuðum. En leyfilegt ætti að vera að bændur dreifi sjálfir beint á nærliggjandi býli sem starfrækja afþreyingu fyrir ferðamenn, veitingastaði og heimili. Miðað við eljuna í þessari stétt nú þegar, þá ætti það að verða létt verk að koma því þannig fyrir að býli geti slegið saman í litla verkun og annað sínu nærsvæði. Skapað sér nafn, ímynd og orðspor á frjálsum markaði og með því verðmæti sem skila sér beint til þeirra sjálfra. Við höfum enga sérstaka þörf til að stýra verði með því að hleypa yfirflæðinu út úr landi á undirverði. Ég get allavega sagt fullum hálsi að ég borgi fullt verð með glöðu geði fyrir heimkeyrt kjöt óháð því hvort dýralæknir hefur lagt hönd á það.

Þetta kann að hljóma óábyrgt, en flestir þeirra aðila sem hefðu áhuga á þessu eru þannig úr garði gerðir að flestir tilkynna ef einhver misbrestur verður í framleiðslu. Enda er viðskiptaleg framtíð í húfi. Hægt er að skjala ferlið með nútíma tækni. Ef læknar geta greint fólk í gegnum vefmyndavél þá getur dýralæknir notað vefmyndavél til að greina frávik í innmat. Hægt er að starfrækja sláturbíl sem tryggir að rétt sé staðið að slátruninni sjálfri og jafnframt að hættulegum vefjum sé komið í réttan farveg. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að bændur geti bjargað sér sjálfir, nema vilji stjórnvalda til að gera betur.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson
Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir