Vel heppnuð reiðsýning
Reiðsýningin útskriftarnema frá Háskólanum á Hólum sem haldin var á laugardaginn tókst með miklum ágætum, og verður ekki annað sagt en að hún hafi verið nemendum, kennurum þeirra og skólanum til mikils sóma, eins og segir á vef skólans.
Í sýningunni leystu nemendurnir ýmiss konar verkefni sem þeir hafa spreytt sig á undanfarin þrjú ár og gáfu þannig mynd af reiðmennskunáminu við Háskólann á Hólum.
Undir lok sýningarinnar klæddust nemendurnir hinum bláa einkennisjakka Félags tamningamanna og hefur það eflaust verið hápunkturinn fyrir suma þeirra.
Viðurkenningu fyrir bestan árangur í reiðmennskugreinum námsleiðarinnar hlaut Fredrica Anna Lovisa Fagerlund. Viðurkenning FT fyrir hæstu einkunn á lokaprófi í reiðmennsku kom einnig í hennar hlut.
Nemendurnir munu fá brautskráningarskírteini sín, fyrir BS í reiðmennsku og reiðkennslu, afhent við sameiginlega brautskráningarhátíð allra deilda skólans, í Menningarhúsinu Miðgarði þann 6. júní nk, en þá er reiknað með að liðlega 70 manns muni útskrifast.
Þess má geta að opið er fyrir umsóknir um skólavist til og með 5. júní, og inntökupróf í reiðmennsku verða haldin dagana 10. - 12. júní.