Verða loftlínur í aðalskipulagstillögu Skagafjarðar?

Áhugafólk um ásýnd Skagafjarðar hefur boðað til upplýsinga- og umræðufundar í Miðgarði á morgun, laugardaginn 3. júní kl. 14. Til umræðu verða áform sveitarstjórnar um að festa í sessi stóriðjulínu í aðalskipulag Skagafjarðar þrátt fyrir að Landsnet hafi tekið Blöndulínu 3 út úr framkvæmdaáætlun og hafi tilkynnt að fyrirtækið ætli að vinna nýtt umhverfismat vegna línunnar þar sem jarðstrengur verður tekinn til mats.

Í pallborði verður rætt hversvegna til stendur að loftlínur verði í aðalskipulagstillögu Skagafjarðar og sér í lagi leitað svara við spurningunni: Styður þú áform sveitarfélagsins Skagafjarðar um að setja Blöndulínu 3, sem loftlínu, inn á aðalskipulag?

Fulltrúum úr sveitarstjórn og skipulagsnefnd Skagafjarðar var boðið sérstaklega til fundarins og óskað eftir þátttöku þeirra í pallborði en ekki er útséð með hvernig það verður þar sem sveitarstjórnarfulltrúar og nokkrir úr starfsliði Sveitarfélagsins hefur verið í heimsókn hjá vinabænum Köge í Danmörku.  Stefáns Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs er einn þeirra sem tekur þátt í heimsókninni segir að hann væri þegar búinn að afboða sig á fundinn í Varmahlíð en verið væri að skoða hverjir geta mætt. Segir hann að þetta sé þannig helgi að fólk hafi verið búið að gera önnur plön.

Fleiri fréttir