Verkföll BSRB hafa mikil áhrif í Skagafirði

Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki. Mynd: PF.
Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Hluti starfsfólks sveitarfélagsins Skagafjarðar er ýmist í eða að fara í verkfall þar sem Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþágu er innan BSRB. Að svo stöddu ná verkfallsboðanir til félagsmanna Kjalar sem starfa í sundlaugum, íþróttamannvirkjum, leikskólum, ráðhúsi, þjónustumiðstöð og Skagafjarðarveitum.

Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að félagsmenn Kjalar á umræddum starfsstöðvum teljist um 80 svo ljóst sé að verkfallsaðgerðir hafa haft víðtæk áhrif á þá þjónustu sem umræddar stofnanir sveitarfélagsins veita íbúum Skagafjarðar. Jafnframt kemur fram að misjafnt verði hvernig áhrifa gæti, en í flestum tilvikum sé um að ræða styttri opnunartíma og eða skerta þjónustu en einhverjar stofnanir munu loka alveg á meðan verkfalli stendur.

Starfsfólk sundlauga og íþróttamannvirkja reið á vaðið sl. laugardag og lögðu niður vinnu fram á mánudag en ef ekki semst verður ótímabundin vinnustöðvun hafin á ný mánudaginn 5. júní.

Starfsfólk leikskóla fóru í verkfall í gær, þriðjudaginn 30. maí sem lýkur ekki fyrr en á eftir morgundaginn 1. júní. Þá er ráðgert að hefja verkfall á ný nk. mánudag til og með föstudeginum 16. júní ef ekki verður búið að leysa deiluna.

Þá mun starfsfólk Þjónustumiðstöðvar, Skagafjarðarveitna og Ráðhúss leggja niður störf mánudaginn 5. júní ef ekki semst fyrr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir