Verum stórhuga en skynsöm, frjálsborin þjóð!

   

Björg Gunnarsdóttir skrifar

 Landið okkar stendur á tímamótum. Í nokkra mánuði höfum við leitað í dyrum og dyngjum eftir upplýsingum sem skýrt geta það sem gerðist í október og nú í aðdraganda kosninga má gera ráð fyrir að í hönd fari tímar uppgjörs við fortíðina. Jafnframt þarf þjóðin að taka ákvörðun um hvert skal halda. Eitt er víst að við Hrunið” breyttist allt á einni nóttu og meirihluti þjóðarinnar skilur að ekki er lengur hægt að stinga höfðinu í sandinn. Uppgjörið mun hinsvegar taka langan tíma og verða samfélaginu erfitt.

 

Ég upplifði sjálf kreppuna í Finnlandi í upphafi 10. áratugarins. Það er margt líkt með upphafi hennar og Hruninu”, hinsvegar vantar mikið uppá að þar hafi fjármálakerfið hrunið jafn algerlega og hér. Samt eru Finnar enn að glíma við ýmis samfélagsvandamál sem rekja má beint til kreppunnar og síðasti dómurinn vegna efnahagsbrota sem tengdust hruni fjármálakerfisins, féll í apríl í fyrra. Um 15 árum eftir að rannsókn hófst! Við skulum vona að viðbrögð íslenskra stjórnvalda við kreppunni miðist við hagsmuni almennings, en ekki gjaldþrota kreddukenningar um efnahagsmál. Eins skulum við vona að uppgjörið við fjárhættuspilarana sem við treystum fyrir þjóðarauðnum taki ekki of mörg ár.

 

Hrunið í október var í raun tvíþætt. Annars vegar var um að ræða alþjóðlegt hrun hugmyndafræði sem stjórn Íslands hafði byggst á í 18 ár. Hins vegar var um að ræða gjaldþrot auðhringa, sem í skjóli  þessarar hugmyndafræði og landlægrar spillingar höfðu safnað undir sig nánast öllu lausafé á Íslandi og veðsett flest það sem ekki var laust. Í sögu landsins minnir áfallið helst á það þegar kóngurinn flutti mestallt lausafé kirkjunnar til Danmerkur við siðaskiptin. Í kjölfarið tókst sérhagsmunaklíkum að halda þjóðinni við hungurmörk í þrjár aldir.

 

Þrátt fyrir þetta er framtíð Íslands björt, ef þjóðinni auðnast að velja sér hlutskipti raunverulegs einstaklingsfrelsis og lýðræðis. Við erum fámenn þjóð en rík af endurnýjanlegum auðlindum. Við þurfum að umgangast þær af virðingu og nýta þær með hagsmuni almennings og afkomenda okkar í fyrirrúmi.

 

Við eigum enn ein bestu fiskimið veraldar, þótt kvótakerfið sé á góðri leið með að hafa þau af okkur. Sjávarafli verður enn um langa framtíð helsta auðlind þessa lands og íslenskt velmegunarsamfélag fær þar af leiðandi ekki staðist til lengdar nema þjóðareign á fiskimiðunum sé tryggð. Jafnframt þarf að finna leiðir til að nýta þau á sjálfbæran máta. Núverandi kerfi uppfyllir hvorugt þessara skilyrða.

 

Við eigum frjósamt land og hér þarf enginn að svelta. Í október var raunveruleg hætta á að innflutningur til landsins stöðvaðist. Margir þeirra sem áður gerðu lítið úr íslenskum landbúnaði uppgötvuðu mikilvægi þess að vera sjálfum sér nógur um mat. Nú er fjárhagsstaða margra bænda ógnvænleg. Því þarf að grípa til sértækra aðgerða til að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón á samfélögum sveitanna og tap á verkþekkingu í landbúnaði. 

 

Við eigum miklu meira en við þurfum af tiltölulega umhverfisvænni orku, það gefur okkur mikil sóknarfæri. Við höfum hinsvegar engan rétt á að sóa henni, hvað þá að stela henni frá afkomendum okkar til að afhenda auðhringum fyrir lítið.

 

Og síðast en ekki síst: Við erum fólk sem alið er upp við frjálsræði og þá sannfæringu að okkur séu allir vegir færir. Ofurvald auðsins var á góðri leið með að hneppa íslenskan almenning í fjötra ólýðræðislegrar, gagnrýnislausrar meðvirkni og vantrúar á eigin mátt. Treystum lýðræðið og leggjum rækt við þá gróskumiklu og gagnrýnu umræðu sem spratt upp við gjaldþrot íslenska auðvaldsins. Til að tryggja gæfuríka framtíð þurfum við vissulega að spila saman, en hvert sína sérstöku rödd. Verum stórhuga en skynsöm, frjálsborin þjóð!

 

Höfundur býður sig fram í forvali VG í NV kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir