Vetrarveður og ófærð í Skagafirði en ekki bólaði á gulri veðurviðvörun
Það hefur verið leiðinlegt vetrarveður í Skagafirði síðasta sólarhringinn og þar er nú éljagangur eða skafrenningur víðast hvar. Ekki var gefin út gul veðurviðvörun, það Feykir best veit, fyrir Strandir og Norðurland vestra og það er nú örugglega eitthvað sem í það minnsta Skagfirðingar geta klórað sér í kollinum yfir í dag. Verið er að moka göturnar á Króknum en þar var erfið færð í morgun, rösk norðanátt og éljagangur og þrengri götur fullar af snjó þannig að reyndir ökuþórar sátu fastir.
Það er búið að vera garg í austanverðum Skagafirði síðan í gærmorgun og í norðanáttinni hafa myndast sæmilegustu skaflar en svo kannski ekkert þar á milli. Þá hefur frést af ökuþórum á Hofsósi sem sátu fastir strax í gær.
Spáð er áframhaldi á þéttri norðanáttinni fram yfir hádegi, vindur yfirleitt á bilinu 7-15 m/sek og ýmist snjókoma eða éljagangur á Norðurlandi vestra. Það dregur úr vindi og ofankomu þegar líður á daginn og ætti veður að hafa gengið niður að mestu um miðnætti. Stillt veður fram að helgi hið minnsta.
Vegir eru færir á þjónustusvæði Vegagerðarinnar á Norðurlandi vestra en í Langadalnum er snjóþekja á vegi og éljagangur og unnið að mokstri líkt og í Blönduhlíð í Skagafirði og á Öxnadalsheiði þar sem unnið er að mokstri. Skafrenningur og snjóþekja eru á Sauðárkróksbraut og Þverárfjallsvegi. Hálka er á flestum vegum í Húnavatnssýslum en snjókoman síðasta sólarhringinn virðist hafa fallið að mestu við Skaga og Tröllaskaga.
Á myndinni hér að neðan sést hvernig færðin var um hálf níu í morgun.

