Viðburðir ehf. - Nýtt fyrirtæki á Sauðárkróki
Viðburðir ehf. er nýtt fyrirtæki á sviði viðburðastjórnunar og rannsókna á viðburðum, staðsett á Sauðárkróki. Fyrirtækið hyggst skipuleggja og halda viðburði, auk þess að bjóða upp á ráðgjöf varðandi framkvæmd viðburða og rannsóknir á áhrifum þeirra. Þá mun fyrirtækið bjóða upp á námskeið og kennslu á sviði viðburða og ferðaþjónustu.
Forsvarsmaður fyrirtækisins er Áskell Heiðar Ásgeirsson, fyrrverandi sviðsstjóri hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og upphafsmaður og annar umsjónarmanna tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar. Auk Heiðars hefur fyrirtækið tengsl við fagfólk á öllum sviðum viðburðastjórnunar sem munu taka þátt í verkefnum fyrirtækisins.
Áskell Heiðar hefur unnið við ferðamál, menningarmál, kynningarmál og skipulag viðburða árum saman, bæði fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og á eigin vegum. Hann lauk nú á vormánuðum MA gráðu frá Háskólanum á Hólum í ferðamálum og viðburðastjórnun, en síðastliðinn vetur dvaldi hann ásamt fjölskyldu sinni í Englandi þar sem hann annaðist nám við Leeds Metropolitan University í viðburðastjórnun sem gestanemi frá Hólum. Heiðar kennir viðburðastjórnun og ferðamálafræði við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum í vetur.
Fyrstu tónleikarnir sem Heiðar skipuleggur undir nafni Viðburða ehf. fara fram í Miðgarði laugardaginn 18. október nk. Þar munu þeir Óskar Pétursson Álftagerðisbróðir og Magni, bróðir Heiðars skemmta ásamt Valmari Valjaot Hvanndalsbróður.
„Óhætt er að lofa miklu fjöri þar sem þeir félagar fara í gegnum sín uppáhaldslög og ekki á hverjum degi sem hægt er að heyra allt frá Hamraborginni yfir í Queen slagara á sömu tónleikunum!“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Fleiri viðburðir eru í burðarliðnum hjá fyrirtækinu, bæði á Sauðárkróki, í Miðgarði og víðar, auk þess sem undirbúningur Bræðslunnar 2015 er þegar hafinn.
Hér er hlekkur á Facebook-síðu fyrirtækisins.