Víðir ÞH 201 komst í hann krappan við Skagaströnd
Strandveiðibáturinn Víðir ÞH 201 strandaði norðan við Skagaströnd seinnipartinn í gær við Finnstaðanes. Mbl.is greindi frá þessu í gærkvöldi.
“Víðir var á landleið úr róðri í en báturinn endaði uppi í grýttri fjöru og sat þar fastur, aðallega á stefninu. Björgunarskipið Húnabjörg var kallað út með mannskap úr björgunarsveitinni Strönd og náði hann Víði á flot um klukkan hálfsjö í kvöld,” segir í frétt Mbl.
Hann var síðan dreginn aftur á bak til Skagastrandar af Húnabjörginni þar sem aflinn var losaður úr honum áður en hann var dreginn á land. Sjór flæddi inn í Víði vegna skemmda á stefninu og því var ekki talið óhætt að draga bátinn mikið lengra. Víðir var orðinn töluvert siginn að framan er hann kom til hafnar á Skagaströnd.
Einn maður var um borð þegar slysið varð en hann er óslasaður.
/SMH