Von á sannkallaðri tónlistarveislu á Gærunni
Tónlistarhátíðin Gæran á Sauðárkróki tilkynnti formlega hverjir munu stíga á svið á tónlistarhátíðinni í Gestastofu Sútarans í gær en hátíðin fer fram í þriðja sinn þann 23. – 25. ágúst nk. Á hljómsveitarlistanum má sjá fjölmarga flotta tónlistarmenn og hljómsveitir og útlit fyrir sannkallaða tónlistarveislu.
„Við erum að toppa okkur núna,“ segir Stefán Friðrik Friðriksson, einn skipuleggjandi tónlistarhátíðarinnar en Gæran hefur vaxið um 100% frá ári til árs.
„Fyrsta árið seldum við 110 miða en í fyrra seldum við 295 miða,“ segir Stefán Friðrik en hátíðina sóttu um 500 manns, með tónlistamönnum og starfsfólki. Í ár stendur til að halda hátíðina í stærra húsnæði hjá Loðskinn og hafa Gæruliðar fengið leyfi til að selja um 7-800 miða.
Fyrsta árið segir Stefán Friðrik að fimm hljómsveitir hafi sótt um að spila á hátíðinni, í fyrra sóttu 14 um að spila á Gærunni en þetta árið voru 46 umsækjendur og gera Gæruliðar ráð fyrir því að gestafjöldi muni aukast að sama skapi.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að sífellt fleiri skagfirsk bönd eru að koma fram á Gærunni; fyrsta árið voru þau fimm, tíu í fyrra en 14 í ár,“ segir Stefán Friðrik og bætir við að upphaflega var lagt upp með það að gefa skagfirskum tónlistarmönnum tækifæri til þess að spila við sem bestu aðstæður, fyrir stóran áhorfendahóp og með stærri hljómsveitum.
Gæran hefur einnig reynst vera góður stökkpallur fyrir minni hljómsveitir, t.d. eins og The Vintage Caravan sem voru tiltölulega óþekktir þegar þeir spiluðu fyrst á Gærunni fyrir þremur árum síðan. En samkvæmt Stefáni Friðrik verða þeir ekki með í ár, þótt þeir hafi sótt um, þar sem Gæran hafi tekið upp svokallaða þriggja ára reglu, en hún tryggir fjölbreytileika tónlistarmanna og að það séu ekki alltaf sömu hljómsveitirnar sem koma fram.
Auka aðdráttaraflið á Sauðárkrók
Fyrirtækjum og ferðaþjónustuaðilum var boðið í kynninguna á Gestastofu Sútarans í gær en þar voru þeir jafnframt hvattir til að vera með viðburði á sama tíma og tónlistarhátíðin. Stefán Friðrik segir hugmyndina hugsaða að fyrirmynd Iceland Airwaves og það yrði til þess að auka aðdráttaraflið á Sauðárkrók með svokölluðum „off-venue“ viðburðum ótengdir Gærunni en þó tengdir. Slíkt framtak yrði öllum til hagsbóta.
Þeir sem koma fram á Tónlistarhátíðinni Gærunni 23. – 25. ágúst eru:
- Eivør Pálsdóttir
- Dúkkulísurnar
- Gildran
- Dimma
- Skytturnar
- Skúli mennski
- Contalgen Funeral
- Sing for me Sandra
- Brother Grass
- Eldar
- Funk That Shit!
- Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar
- Sverrir Bergmann og munaðarleysingjarnir
- Nóra
- Rock to the Moon
- Death by Toaster
- Wicked Strangers
- Art Factory Party
- Beebee and the Bluebirds
Sólóistakvöld 23. ágúst:
- Dana Ýr
- Sóla og Sunna
- Sveinn Rúnar
- Fúsi Ben og Vordísin
- Myrra Rós
- Gillon
- Joe Dúbíus
- Ink City
Hér má sjá kynningarmyndband Gærunnar 2012.



