Voru í næsta nágrenni við hryðjuverkin í Barcelona
Hjónin Líney Árnadóttir og Magnús Jósefsson i Steinnesi í Austur-Húnavatnssýslu voru stödd rétt við Römbluna í Barcelona þegar mannskæð hryðjuverkaárás var gerð þar seinni partinn í gær. Rætt var við Líneyju í Sídegisútvarpinu á Rás 2 í gær. „Við vorum kannski svona 100 metrum frá þessu,“ sagði Líney en þau hjónin voru á gangi á götunni Carrer de la Boqueria í gotneska hverfinu á leið að markaði sem er á torgi á horni götunnar og Römblunnar. „Við vorum alveg að koma á torgið þegar við heyrum hróp og öskur og ískur í bílnum og skelfileg vein,“ segir Líney. Þau hjónin tóku til fótanna og hlupu í átt frá Römblunni ásamt hópi fólks sem flýði í dauðans ofboði.
Í fyrstu héldu Líney og Magnús að kannski hefði orðið árekstur og enginn virtist vita hvað var að gerast en fljótlega greip um sig örvænting á ný þegar hrópað var „vopnaðir menn, vopnaðir menn,“ og fólksmergðin hljóp af stað á ný. Þau leituðu loks skjóls í anddyri hótels og létu fyrir berast þar ásamt fleira fólki. „Þetta er erfið lífsreynsla og maður er svona í panikk og hugsar til þess hvað voru margir þarna. Við vorum nýbúin að vera á þessu torgi og höfðum ákveðið að fara aftur þarna niður á markaðinn,“ sagði Líney.
Hægt er að hlusta á viðtalið, sem tekið við Líneyju þar sem hún beið átekta á hótelinu, í Sarpinum á Ruv.is.