Yfir fannhvíta jörð leggur frið
Hann tók allt í einu upp á því að fara að snjóa í gær hér á Norðurlandi vestra. Ekki reyndust það nú nein ósköp, það var alla jafna logn og snjórinn féll niður nánast í snefilmagni en jörð varð hvít og kannski eins og við viljum hafa hana á þessum árstíma. Vegir eru allir færir en engu að síður ýmist hálka eða snjóþekja á vegum. Verið er að moka Öxnadalsheiði en veður er víðast hvar skaplegt – ef ekki allsstaðar.
Éljagangur er á heiðum og í Skagafirði en Húnvetningar sleppa betur. Reikna má með að það snjói eitthvað fram yfir hádegi. Á morgun snýst í sunnanáttir sem verða örlítið snarpari en vindurinn í dag en spáð er björtu veðri. Á miðvikudag er spáð hlýrra veðri og töluverðum vindi og jafnvel rigningu þannig að það er ólíktlegt að fannhvíta jörðin staldri lengi við hjá okkur.
Á föstudag og laugardag er spáð ágætu veðri, hita í kringum frostmark en samkvæmt spánni hlýnar þegar líður að laugardagskvöldi.
