Auðvitað komst aldrei upp hverjir hrekkjalómarnir voru

Hver er maðurinn? Helga Stefanía Magnúsdóttir

Hverra manna ertu? Dóttir Magnúsar Jónassonar (Dadda) og Þóreyjar Guðmundsdóttur

Árgangur? 1959 nema hvað, sá allra besti segja menn

Hvar elur þú manninn í dag? Bý í Hvalfjarðarsveit, heitasta staðnum á landinu

Fjölskylduhagir?  Í sambúð

Afkomendur?  Þórey Birna (1990) og Agnes Helga (1995)

Helstu áhugamál?   Ferðast til útlanda, lesa góða krimma, hlusta á gamalt rokk, hitta vinina úr árgangi 1959 og auðvitað fleiri góða vini, syngja, vinn í því að koma mér upp áhuga á gönguferðum.

Við hvað starfar þú?  Ég er skólastjóri í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ………………gott að vera, helst í garðinum heima, þegar veðrin eru góð.

Það er gaman……………að ferðast á framandi slóðum

Ég man þá daga er……………………við krakkarnir fórum í dagsferðir með nesti upp í grænu klauf og álíka staði sem voru töluvert út úr bænum að mig minnir.

Ein gömul og góð sönn saga………………Við María (Mæja Bödda) vorum hryllilega hrekkjóttar í gamla daga (við erum steinhættar því auðvitað.)  Við eins og margir unglingar á Króknum í þá daga, unnum í fiski á sumrin.  Þetta var nú frekar einhæf vinna og allt að því leiðinleg á köflum og vorum við frekar duglegar að finna okkur eitthvað til að „poppa“ upp tilveruna.  Þeir sem unnu hjá Fiskiðjunni í gamla daga muna e.t.v. eftir því að klósettin voru þannig útbúin að ekki var hægt að læsa og setti maður stígvélið undir hurðina til að láta vita að settið væri upptekið.  Einn daginn höfðum við fengið stórvin okkar Kidda Sölva til að útvega okkur tvö stígvél en Kiddi var mjög óspar á aðstoð þegar hrekkir voru annars vegar.  Eftir síðdegiskaffið laumuðum við stígvélunum tveimur undir tvær klósetthurðir , en náðhúsin voru þrjú, og settum tilkynningu um bilað klósett á hina þriðju.  Síðan var beðið átekta.   Í pásunni streymdu kellingarnar á klósettið og þar var komin röð af tvistandi kellingum fram á gang þar sem enginn þorði að athuga málið lengi vel.  Það var óskapast yfir þessarri löngu setu stígvelanna en að lokum þorði einhver að skoða hvað var í gangi.  En auðvitað komst aldrei upp hverjir hrekkjalómarnir voru en það upplýsist hér með en þar sem svona langt er liðið er glæpurinn fyrndur og ekki hægt að húðstrýkja okkur.

Spurning Guðríðar Ólafs............ Hver gaf flest olbogaskotin í Búnaðarbankanum í denn? 

Var það ekki bara stjórinn sjálfur Ragnar Pálsson annars væri nær að spyrja Siggu Simma um svona hluti hún man allt.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn…………. Sigurlaug Margrét Bragadóttir (Magga Braga)

Spurning:  Af hverju gaf Yngvi Geirmunds þér nafnið „Magga persóna“??????

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir