Ég vildi ekki vera á "elliheimilinu"

Hver er maðurinn?  Gunnar Freyr Steinsson.

Hverra manna ertu?  Ég er sonur Gurrýjar og Steina stóra á Hofsósi.  Annars hefur reynst fljótlegast að segja Skagfirðingum fæddum 1965 og fyrr að ég sé dóttursonur Gunnsa Balda, þá vita þeir flestir hvað klukkan slær.

Árgangur? 1975

Hvar elur þú manninn í dag?  Undanfarin þrjú ár hef ég búið í hinni gullfallegu borg Victoria, sem er á eyju við vesturströnd Kanada.  Frá Hofsósi flutti ég hins vegar til Hafnarfjarðar haustið 1986.

Fjölskylduhagir?  Kvæntur Hólmfríði Steinþórsdóttur.

Afkomendur?  Sonurinn Márus Björgvin, sem er skírður í höfuðið á öfum sínum Steini og Steinþóri.  Hvorugur notar millinafnið sitt, svo við hjónin ákváðum að taka þau upp á okkar arma, enda ótækt að láta falleg nöfn fara til spillis.

Helstu áhugamál? Þau eru ansi mörg, en í þrennt skýst upp á yfirborðið án umhugsunar: Ljósmyndun, körfubolti og ferðalög.

Við hvað starfar þú?  Ég er svo heppinn að geta starfað við eitt aðaláhugamálið mitt, en ég vinn sem ljósmyndari í Victoria.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er... í tveimur löndum, og sú tilfinning er góð.

Það er gaman... að koma í heimsókn til Íslands.

Ég man þá daga er... mjólkin var seld í plastpokum.

Ein gömul og góð sönn saga...

Ég var nú svo lítill þegar ég flutti suður að það má segja að ég hafi ekki gert neitt frásagnarvert fyrr en eftir það, en það var samt hægt að finna eitthvert smotterí:

Þegar ég var pjakkur, á að giska fjögurra ára, þá var mikið rætt um að byggja ætti elliheimili á Hofsósi.  Það fannst afa mínum og bróður hans síður en svo nauðsynlegt og eldhúsumræðurnar voru oft á þann veg að Hofsósingar þyrftu ekki á því að halda, þeir myndu bara halda áfram að búa heima hjá sér til dauðadags!  Þeir bræður ætluðu sér í það minnsta ekki að búa á elliheimili.  Þetta síaðist inn í barnungan pollann (mig) þar sem ég sat undir eldhúsborði í Bræðratungu.

Um svipað leyti var komin þörf fyrir barnapössun fyrir þær konur (neinei, ekki karlana, bara konurnar), sem unnu á frystihúsinu.  Þá var komið upp barnaheimili í Flugumýri (ef ég man rétt).  Ég átti eitthvað erfitt með að gera greinarmun á þessum tveimur heimilum (barna og elli), og sagði, fullur þvermóðsku, að ég vildi ekki vera á "elliheimilinu".

Bergur afabróðir minn kom mér þá til bjargar og úr varð að mitt barnaheimili varð olíubíllinn hans, og saman keyrðum við með olíuna út um allar sveitir, drekkandi malt og maulandi krembrauð.

Spurt frá síðasta viðmælanda: Hvernig tilfinning var að skilja Óla Björn og Róbert eftir hjá öllum stelpunum í bekknum okkar??

Ég vissi að ég var að skilja þá eftir í góðum höndum.  Ég hef hins vegar aldrei verið viss um hvort það hafi verið þannig á hinn veginn.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn: Rúnar Birgir Gíslason

Spurningin er: Hvernig var fyrir Varmhlíðing að styðja körfuboltalið á Króknum?  Þurftir þú að ímynda þér að þú værir í raun og veru að hvetja Glóðafeyki?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir