Eins og að flytja í stórborg – Guðbjörg Hólm

Hver er maðurinn? Guðbjörg Hólm

Hverra manna ertu? Droplaug Þorsteinsdóttir er móðir mín og Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson er stjúpfaðir minn.

Árgangur? Ég er fædd árið 1959, sem margir segja að sé besti árgangurinn, ég tek undir það.

Hvar elur þú manninn í dag? Flutti til Reykjavíkur í upphafi ársins 1981 og ætlaði að vera til vorsins – en er hérna enn.  Byggðum okkur hús í Grafarvoginum sem við fluttum inn í árið 1989.

Fjölskylduhagir? Er gift Ragnari Antoni Sigurðssyni (Ragga Lóla)

Afkomendur? Eigum tvær dætur, Írisi fædda 1984 og Sif fædda 1989.  Íris er í Mastersnámi við Háskólann á Bifröst í Alþjóðlegum viðskiptum og Sif er Háskóla Íslands að læra Þroskaþjálfafræði.

Helstu áhugamál? Það er nú ýmislegt, t.d. gönguferðir, lestur góðra bóka, hundarnir mínir en ég á tvo hunda og er með einn til viðbótar í pössun.  Svo spila ég golf og hef sérstaklega gaman af því að hitta Skagfirðinga á árlegu golfmóti sem Gunni bakari hefur haft umsjón með undanfarin ár.

Við hvað starfar þú? Ég er innheimtufulltrúi og gjaldkeri hjá Íslenskri getspá, ég s.s. vinn í lottóinu.

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er ..................... alltaf best

Það er gaman......................... þegar við bekkjarfélagarnir hittumst og slettum aðeins úr klaufunum.  Það má segja að þetta sé einstaklega samheldinn árgangur.  Við sem búum hérna sunnan heiða hittumst mjög reglulega og ef við fréttum af einhverjum sem er að koma í heimsókn til borgarinnar er blásið til hittings.  Erum m.a.s. nokkur sem erum að fara að heimsækja bekkjarfélaga sem býr í Danmörku nú í sumar.

Ég man þá daga er........................ við sátum heilu dagana á Túttabar – sem hét nú reyndar Kjörbarinn en var aldrei kallaður annað en Túttabar -  og spiluðum Kana.  Það var ekki farið heim úr skólanum heldur beint á Túttabar og þar var spilað í marga klukkutíma,  skil ekki ennþá hvernig starfsfólkið nennti að hafa okkur þarna.  Ég man líka hvað Áshildarholtið var langt í burtu, getur verið að það hafi færst nær bænum?

Ein gömul og góð sönn saga.................. Þegar við vorum 14 ára þótti voða fínt að reykja. Eitthvað gekk mér brösuglega að læra þetta þannig að það var ákveðið að kenna mér það, Halla og Sibba fóru þar fremstar í flokki. Kennslan fór fram við hringborðið við gluggann á Bláfelli.  Það tók allt kvöldið að kenna mér þessa kúnst en að lokum tókst það og galdurinn var að segja amen um leið og maður dró að sér reykinn.  En ég er löngu búin að gleyma hvernig á að gera þetta og er ekkert að hugsa um að rifja það upp.

 

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Hvernig var að koma frá Hólmavík á Krókinn. Hvaða bekk komstu í og hvernig tóku við á móti þér.

Svar............Að flytja til Sauðárkróks frá Hólmavík var auðvitað bara ævintýri, það var ekki einu sinni bíó á Hólmavík en þetta líka flotta bíó á Króknum J Þetta var eins og að flytja í stórborg.  Ég flutti árið sem ég byrjaði í 6. bekk og var sett í bekkinn hans Sighvatar.  Það var býsna vel tekið á móti mér og ég féll strax inn í hópinn.  Við sátum tvö og tvö við hvert borð og ég sat við borð með Hönnu Hauks.  Og það var ekki gefinn sentimeter eftir, borðplatan var mæld upp með reglustiku og töskurnar voru látnar standa akkúrat á miðjunni.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn.............María Björk Ásbjarnardóttir

Spurningin er.................. Þegar við fórum í skólaferðalag um Skagafjörðinn í 6. bekk vorum við flest allar í köflóttum skyrtum, rosalegar pæjur. Hvar fengum við þessar skyrtur?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir