Klaufabárðarnir aftur á skjáinn

Herra Hundfúll rak augun í það nú í vikunni að Sjónvarpið hefur aftur hafið sýningar á Klaufabárðunum. Þessir tveir fyrstu þættir hafa reyndar verið í lengra lagi og meira að segja með hléi en atburðarásin er upp á gamla móðinn og allt klúðrast í lokin. Það er þó öðruvísi núna en í gömlu þáttunum að það hefur verið fenginn maður til að lýsa því sem fyrir augu ber og hefur hann jafnan allt á hornum sér nema þegar eitthvað gengur upp en þá er klaufabárðunum lýst með fögrum lýsingarorðum. Það er líka nýbreytni að þegar Klaufabárðarnir hafa lokið leik sínum eru menn í Sjónvarpssal sem stara orðlausir í gaupnir sér og þusa ráðalitlir að því er virðist mest við sjálfa sig um það sem fyrir augu bar. Herra Hundfúlum hefur reynst erfitt að horfa á þessa þætti sem eru talsvert dramatískari en fyrri syrpur með þeim félögum en vonast þó til að betri tímar séu framundan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir