Úrslitin á HM ráðast í kvöld

Herra Hundfúll henti saman tveimur vísum í nótt og kannski ekki verulega góðum. Svona til útskýringar er kannski rétt að segja frá því að Palli blaðamaður Friðriks spáir líkt og nafni hans, Páll kolkrabbi frá Þýskalandi, Spánverjum sigri gegn Hollendingum á HM í kvöld og fjallar fyrri vísan um það.

Í seinni vísunni er vegur Hollendinga gerður meiri og daðrað við að hornspyrna ættuð úr Fljótum gæti skilað sigri til þeirra.  Mörk úr hornspyrnum voru ein af sérgreinum Þórhalls Ásmundssonar fyrrum ritstjóra Feykis sem skoraði ófá mörk beint úr hornspyrnum þegar hann lék með Stólunum í denn - sennilega verið með betri nýtingu úr hornum en Róbertó Carlos úr aukaspyrnum.

Kolkrabbinn Páll og nafn'ans forðum í ketinu
kankvísir titlinum spá
sparkvísum spánverjum - já, boltann í netinu
Sneijder og hollenskir sjá.

En kannski þeir Persie, Bommel og Kuyt
kappsamir spyrni við fótum
og hollenskir geri þá heimaskítsmát
með hornspyrnu ættaðr'úr Fljótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir