Þórir Guðmundur og Eva Rún valin best í vetur

Leikmenn meistaraflokka sem hlutu viðurkenningar á uppskeruhátíð kkd. Tindastóls. Frá vinstri: Þórir, Inga Sigríður, Eva Rún, Inga Sólveig. À myndina vantar Brynju Líf. MYND AF FB-SÍÐU KKD TINDASTÓLS
Leikmenn meistaraflokka sem hlutu viðurkenningar á uppskeruhátíð kkd. Tindastóls. Frá vinstri: Þórir, Inga Sigríður, Eva Rún, Inga Sólveig. À myndina vantar Brynju Líf. MYND AF FB-SÍÐU KKD TINDASTÓLS

Lokahóf Körfuknattleiksdeildar Tindastóls var haldið á Kaffi Krók síðastliðið föstudagskvöld og þar var gert upp sögulegt tímabil þar sem karlaliðið stóð ekki undir væntingum en kvennaliðið daðraði við að komast í efstu deild í fyrsta sinn á öldinni. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Eva Rún Dagsdóttir voru valin bestu leikmennirnir af samherjum sínum.

„Leikmenn, þjálfarar, stjórnarfólk og stuðningfólk var mætt og átti góða kvöldstund samna,“ segir í frétt á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildarinnar.

Það voru leikmenn sem völdu bestu leikmenn vetrarins í meistaraflokkum karla og kvenna. Í meistaraflokki karla var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson sem fyrr segir valinn besur en hann var hreint frábær og þá sérstaklega fyrri hluta tímabilsins.

Hjá meistaraflokki kvenna var Eva Rún Dagsdóttir valin besti leikmaðurinn en að auki veitti þjálfari meistaraflokks kvenna, Helgi Freyr Margeirsson eftirtaldar viðurkenningar til leikmanna; Inga Sigríður Jóhannsdóttir var leiðtoginn, Inga Sólveig Sigurðardóttir varnarmaður vetrarins og Brynja Líf Júlíusdóttir sýndi mestar framfarir.

„Stjórn körfuknattleiksdeildar Tindastóls þakkar leikmönnum, þjálfurum, styrktaraðilum, sjálfboðaliðum og stuðningsfólki fyrir veturinn,“ segir að endingu í tilkynningunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir