Hólabak ræktunarbú ársins í A-Hún
Uppskeruhátíð Búgreinafélags í Austur-Húnavatnssýslu og Hestamannafélagsins Neista var haldið í Félagsheimilinu á Blönduósi 19. nóvember sl.
Fram kemur á heimasíðu Neista að kvöldið hafi tekist mjög vel í alla staði en Sr. Hjálmar Jónsson stjórnaði veisluhöldum og stórhljómsveit Dúa og Stulla sá um tónlistina. Þar voru einnig veitt ýmis verðlaun og viðurkenningar til þeirra sem þóttu skara fram úr þetta árið.
Ólafur Magnússon var valinn knapi ársins 2011 hjá hestamannafélaginu Neista en hann keppti víða með góðum árangri.
Ræktunarbú ársins 2011 var Hólabak í Húnavatnshreppi og veittu ábúendur þar Björn Magnússon og Aðalheiður Ingvarsdóttir verðlaunum viðtöku.
Tvö hross frá Hólabaki voru sérlega áberandi þetta árið, þ.e. Heiðdís og Sigur. Heiðdís er fimm vetra hryssa en hún fékk fjórar níur, fyrir tölt, stökk, vilja og geðslag og fegurð í reið á héraðssýningu í maí sl. Sigur gerði það gott á keppnisvellinum í ár en þeir Hinrik Bragason urðu t.d. Íslandsmeistarar í fjórgangi og á urðu í 4. sæti í tölti og 5. sæti í fjórgangi á Heimsmeistaramótinu í Austurríki sl. sumar.
Hæst dæmdu hross í A-Hún
Heiðdís frá Hólabaki fékk Sölufélagsbikarinn en hún var, sem fyrr segir, hæst dæmda hryssan í eigu heimamanns á héraðssýningu í Húnaþingi.
Búnaðarbankabikarinn fékk Freyðir frá Leysingjastöðum en hann er hæst dæmdi stóðhestur í eigu heimamanns á héraðssýningu í Húnaþingi.
Kompás frá Skagaströnd fékk Fengsbikarinn, sem gefinn er til minningar um Guðmund Sigfússon frá Eiríksstöðum og er hann veittur hæst dæmda kynbótahrossi í eigu heimamanns.
Bikar var veittur til minningar um Magnús Blöndal frá Skagaströnd og er hann veittur hæst dæmda fjögurra vetra stóðhesti úr Austur-Húnavatnssýslu.Viti frá Kagaðarhóli hlaut þann bikar en hann er gefinn af Sveini Inga Grímssyni og fjölskyldu.
Samtök Hrossabænda í A.-Hún veittu jafnframt ræktendum í félaginu viðurkenningar fyrir hæst dæmdu kynbótahrossin og má sjá nánar um það á heimasíðu Neista.