Hörð lexía Stólastúlkna í boði FH

Murr var sterk í liði Tindastóls í dag og gerði vörn FH oft erfitt fyrir. Það dugði þó ekki til. MYND: ÓAB
Murr var sterk í liði Tindastóls í dag og gerði vörn FH oft erfitt fyrir. Það dugði þó ekki til. MYND: ÓAB

Tindastóll og FH mættust í dag á Sauðárkróksvelli í Inkasso-deild kvenna. Stólastúlkur gerðu sér lítið fyrir í 1. umferð og lögðu lið Hauka að velli en rauða hluta Hafnarfjarðar hafði verið spáð 2. sæti í deildinni af spekingum. Lengi framan af leik í dag leit út fyrir að FH-liðið, sem spáð er toppsæti deildarinnar, þyrfti að lúta í gras líkt og grannar þeirra en þegar til kom reyndist reynsla svarthvítu gestanna drjúg og þeir snéru leiknum sér í vil í síðari hálfleik. Lokatölur, í gríðarlega fjörugum leik, 4-6 fyrir FH.

Fyrsta mark leiksins gerði Jackie Altschuld á 8. mínútu og líkt og sigurmarkið gegn Haukum þá skoraði hún beint úr hornspyrnu. Lið Tindastóls átti nokkrar flottar sóknir í byrjun leiks og það kom því eins og köld vatnsgusa þegar gestirnir jöfnuðu úr fyrstu sókn sinni í leiknum á 14. mínútu. Þá fékk Nótt Jónsdóttir stungu inn fyrir vörn Tindastóls og skoraði af öryggi. Stólastúlkur voru fljótar að jafna sig og Murielle Tiernan gerði gott mark á 18. mínútu og Guðrún Jenný bætti við þriðja markinu fjórum mínútum síðar. Litlu munaði að lið Tindastóls kæmist í 4-1 þegar há sending inn á teig FH hafnaði í stönginni. 

Það má segja að FH hafi minnkað muninn í annarri hættulegri sókn sinni í leiknum. Þá taldi aðstoðardómari að Lauren Amie Allen í marki Tindastóls hefði  brotið af sér í vítateignum og flaggaði víti – mjög umdeilanleg ákvörðun en leikmaður FH hafði komist í boltann eftir hörmuleg mistök í vörn Tindastóls. Úr vítinu minnkaði Helena Ósk Hálfdánardóttir muninn, staðan 3-2 í hálfleik, og var þetta ansi hörð lexía fyrir ungt lið Tindastóls sem hafði í raun haft yfirburði fyrsta hálftímann. Nokkuð dró af Stólastúlkum þegar leið að hálfleik og gestirnir fóru að halda boltanum betur.

Reikna mátti með strembnum síðari hálfleik en engan óraði fyrir að lið FH yrði búið að jafna eftir mínútu. Allen í marki Tindastóls gerði sig þá seka um hroðaleg mistök, missti framhjá sér sendingu inn á teiginn og Nótt Jónsdóttir gat ekki annað en skorað. Bæði lið fengu ágæt færi eftir þetta en vörn FH stóðst nokkrar ágætar tilraunir frá Murr.  Nótt fullkomnaði þrennuna með marki á 64. mínútu, átti þá ágætt skot sem Allen hefði átt að höndla betur en henni tókst ekki að slá boltann yfir markið og hann söng því í netinu. Staðan orðin 3-4. 

Eftir þetta tóku FH-stelpurnar yfir leikinn og stjórnuðu miðjunni gjörsamlega þar sem þær fengu alltof mikinn  tíma til að athafna sig. Sóknarleikur Stólastúlkna breyttist í látlausar kýlingar fram völlinn sem skiluðu engu öðru en því að gestirnir náðu boltanum aftur. Helena Ósk gerði fimmta mark FH á 72. mínútu eftir klafs í teig Tindastóls og sjötta mark gestanna gerði Margrét Sif Magnúsdóttir með glæsilegu skoti. Þá loks komst lið Tindastóls aftur inn í leikinn og Vigdís Edda minnkaði muninn í 4-6 á 83. mínútu eftir fyrirgjöf en ekki tókst heimastúlkum að gera almennilega atlögu að forystu FH þrátt fyrir að leggja allt í sölurnar. Niðurstaðan því svekkjandi tap.

Lið FH féll úr Pepsi-deildinni síðasta haust og því ljóst að við reynslumikið og sterkt lið var að eiga, þrátt fyrir miklar breytingar á mannskap. Í stöðunni 3-1 fyrir Tindastól og mikla yfirburði framan af hafa örugglega einhverjir stuðningsmenn Stólanna verið farnir að sjá Pepsi-deildina í rósrauðum bjarma næsta sumar! En þó stelpurnar séu sannarlega flottar þá á ungt liðið eðlilega mikið eftir ólært. Kraftur Stólastúlkna í byrjun leiks virtist koma gestunum í opna skjöldu en leikurinn er 90 mínútur og krafturinn entist hreinlega ekki. Liðið þarf að vanda sig aðeins meira við að halda boltanum og spila honum sín á milli. Það er auðvitað frábært að skora fjögur mörk gegn FH, og lið Tindastóls var magnað á köflum í dag, en ef bensínið er búið eftir endalausa spretti fram völlinn þá er hætt við því að reynslumeiri lið nýti sér það. Í dag nýttu gestirnir sér vel að miðjumenn þeirra fengu tíma þegar á leið leik til að snúa með boltann og finna sendingaleiðir inn fyrir vörn Tindastóls. Rétt er þó að taka fram að nokkur marka FH voru í ódýrari kantinum – gjafir sem reyndust rándýrar þegar upp var staðið.

Eftir þetta svekkelsi er ekkert annað í stöðunni fyrir Tindastólsstúlkur en að berja sig saman aftur og mæta sprækar í næsta leik. Margir leikmenn liðsins eiga ýmsilegt inni og hafa möguleika á að sýna það nk. föstudagskvöld þegar stelpurnar mæta sterku liði Þróttar í Reykjavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir