Ný reglugerð um riðuveiki í fé
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um riðuveiki í fé. Markmið reglugerðarinnar er að útrýma riðuveiki í sauðfé á Íslandi og ná þeim markmiðum sem sett eru fram í landsáætlun um útrýmingu sauðfárriðu, þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
- Að litlar líkur séu á að upp komi riðuveiki á landinu frá og með árinu 2028.
- Að Ísland hljóti viðurkenningu ESB árið 2032 um að hverfandi líkur séu á að riðuveiki komi upp hér á landi.
- Að innan 20 ára hafi sauðfjárriðu verið útrýmt á Íslandi.
Reglugerðin kveður m.a. á um einföldun stjórnsýslu. Því samhliða eiga útgjöld ríkissjóðs vegna riðuveiki að minnka vegna minnkandi fjölda bótagreiðslna auk minni kostnaðar vegna hreinsunar og upprætingar smitefnisins. Ekki síst mun færra fé þjást vegna riðuveiki og færri áföll dynja á sauðfjárbændum vegna þessarar ólæknandi veiki.
Reglugerðin kveður einnig á um nýja nálgun við útrýmingu riðuveiki. Í stað þess að reyna að útrýma smitefninu sjálfu verður veikinni útrýmt með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn riðuveiki ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta mögnun og dreifingu smitefnisins. Aðgerðir verða áhættumiðaðar, stigmagnandi og beint að tilteknum áhættuflokkuðum bæjum en ekki jafnt að öllum bæjum í viðkomandi varnarhólfi líkt og verið hefur. Einnig verður öllum sauðfjáreigendum skylt að rækta fé sitt þannig að það verði ónæmt fyrir riðuveiki. Takmarkanir sem settar verða á riðubæi og áhættubæi verða hnitmiðaðri og gilda í styttri tíma eða í allt niður í sjö ár í stað tuttugu ára eins og nú er.
Bætur til bænda vegna niðurskurðar og stuðnings við uppbyggingu nýrra hjarða verða fyrirsjáanlegri og miða að því að bændur hafi náð að jafna tekjumissi vegna uppkomu riðuveiki innan fimm ára. Stjórnsýsla vegna riðuveiki færist að mestu frá atvinnuvegaráðuneytinu til Matvælastofnunar.
Breytingar voru gerðar á reglugerðinni í kjölfar athugasemda sem bárust eftir birtingu í Samráðsgátt stjórnvalda. Helsta breytingin er sú að Matvælastofnun verður heimilt að leyfa flutning fjár með verndandi arfgerð á afrétt á fyrsta ári eftir uppkomu riðuveiki.
Fé á riðubæjum sem ekki verður leyft að flytja á afrétt, það er fé sem ekki ber verndandi arfgerð ber að halda í heimahögum á takmörkunartíma og verður Matvælastofnun heimilt að taka þátt í girðingakostnaði bænda að vissum skilyrðum uppfylltum.
Reglugerðin hefur þegar tekið gildi, þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
