Jafnt hjá Hvöt og KS/Leiftri

Það verður ekki annað sagt um leik Hvatar og KS/Leifturs en að annað liðið sótti til sigurs en hitt til að landa einu stigi. Leikmenn Hvatar voru mun meira með boltann og sköpuðu sér mun fleiri opin færi í leiknum en inn vildi boltinn ekki og því sættust liðin á skiptan hlut. Hvöt er því áfram í 5. sætinu og KS/Leiftur í því sjöunda.

Fyrstu tíu mínútur leiksins voru nánast eign heimamanna en fyrsta almennilega færi kom þó ekki fyrr en fimm mínútum síðar er Hilmar Þór Kárason komst inn í teiginn hægra megin og átti gott skot á marki sem Nezir Ohram varði vel í horn. Upp úr horninu átti Damir Muminovic skalla í stöngina, þaðan barst boltinn til Egils Björnssonar sem átti skot á markið en það var varið á línu og fékk hann svo aftur en seinna skotið fór framhjá. Stuttu síðar einlék Frosti Bjarnason upp völlinn úr vörninni og var kominn inn í teig andstæðinganna þar sem hann var hindraður af tveimur leikmönnum gestanna en ekkert dæmt þrátt fyrir hávær mótmæli heimamanna.

Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð og úr varð miðjuþóf en Hvatarmenn þó mikið meira með boltann en KS/Leiftur hefði þó getað náð forystunni eftir herfileg varnarmistök Hvatarmanna en leikmaður gestanna var klaufi að klára ekki tækifærið. Staðan því jöfn í hálfleik 0-0.

Síðari hálfleikur hófst með góðri sókn Hvatarmanna en þá komst Bjarni Pálmason í gegnum vörn gestanna og átti ágætis skot sem markmaðurinn varði, frákastið tók Mirnes Smajlovic og skoraði en var dæmdur rangstæður. Gestirnir áttu tvö hálffæri eftir þetta en ekkert sem ógnaði marki heimamanna frekar en í fyrri hálfleik. Það var síðan um miðjan hálfleikinn sem næsta almennilega færið leit dagsins ljós er Jón Kári Eldon komst í gegnum vörn gestanna og átti skot á markið. Knötturinn fór undir markmann gestanna en á leið sinni í markið komst einn varnarmaður fyrir skotið og varði nánast á marklínu. Eftir þetta fengu bæði lið nokkur hálffæri en það var síðan á loka mínútu venjulegs leiktíma að Hvatarmenn tættu vörn gestanna í sig og boltinn barst fyrir markið frá vinstri. Þar var einn leikmanna Hvatar einn og óvaldaður á markteig og enginn Nezir í markinu en hann náði einhvern veginn að sópa boltanum yfir markið og þar sluppu gestirnir svo sannarlega með skrekkinn. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og jafntefli staðreynd.

Því skal haldið til haga að Frosti Bjarnason lék heilann leik og að auki spilaði hann í lánsskóm frá formanni knattspyrnudeildar en þetta voru gamlir Pumaskór sem ekki höfðu verið notaðir fyrr á þessari öld.

/hvotfc.is

Fleiri fréttir