„Mér finnst gaman að hjálpa þessu liði að ná eins langt og mögulegt er“

Amber, Jackie og Mur byrjaðar að skreyta íbúðina. MYNDIR AÐSENDAR
Amber, Jackie og Mur byrjaðar að skreyta íbúðina. MYNDIR AÐSENDAR

Feykir sagði frá því í síðustu viku að von væri á bandarísku stúlkunum þremur, sem spila með liði Tindastóls í sumar, til landsins. Það stóð heima og þær Murielle Tiernan, Jackie Altschuld og Amber Michel eru mættar á Krókinn og komnar í sóttkví. Við fengum Mur til að svara nokkrum spurningum af þessu tilefni.

Mur er að spila þriðja sumarið í röð með liði Tindastóls og hefur reynst liðinu sannkallaður happafengur. Jackie var með liði Tindastóls í 1. deildinni í fyrrasumar en varð fyrir höfuðmeiðslum og missti af stórum hluta tímabilsins. Amber er hins vegar á Íslandi í fyrsta skipti en hún er nýr markvörður liðsins. Feyki langaði að forvitnast um ástandið í Bandaríkjunum, ferðalagið til Íslands og sumarið framundan en fyrst var Mur spurð um hvað á daga hennar hefði drifið síðustu mánuðina

„Ég og Jackie fórum saman í ferðalag í tvær vikur eftir tímabilið í fyrra, fórum til Grikklands, Króatíu og Svartfjallalands,“ segir Mur. „Þegar ég kom heim byrjaði ég að þjálfa svolítið hjá fótboltaliði á mínu svæði og var líka að leysa af við kennslu. Ég ferðaðist til Colorado og Norður-Karólínu til að heimsækja vini úr háskóla og fór til Texas að hitta bróður minn. Ég nýt þess að vera heima og geta eytt tíma með vinum mínum og fjölskyldu.“  Mur segir að Jackie hafi í vetur eytt meirihluta tíma síns heima í San Diego við þjálfun á háskólaliði (UCSD) sem og framhaldsskólaliðs og hún hafi einnig verið með nokkra unga krakka í einkaþjálfun. „Hún hefur stofnað eigið fyrirtæki sem er með fótboltaæfingar á því svæði. Hún þurfti að flytja aftur til Los Angeles (þar sem fjölskylda hennar býr) vegna COVID-19 þar sem háskólasvæðinu var lokað,“ segir Mur.

Hafið þið eitthvað getað æft fótbolta síðustu mánuði? „Það er ekkert lið sem ég get æft með á mínum heimaslóðum svo ég einbeiti mér aðallega að því að halda mér í góðu formi og fæ stundum að snerta boltann þegar ég er að þjálfa. Jackie gat æft með háskólaliðinu nokkuð stöðugt. Amber lauk háskólaferli sínum í nóvember og hefur síðan verið í verðskulduðu fríi. Hún hefur haldið sér í formi með því að lyfta og þjálfa upp á eigin spýtur.“

Aðspurð um áhrif COVID-19 á lífið í Bandaríkjunum síðustu tvo mánuði segir hún að ástandið sé búið að vera hörmulegt. „Ég fór í raun ekki út úr húsi nema til að æfa. Þetta eru erfiðir tímar og margir vina minna og fjölskyldur hafa lent í vandræðum fjárhagslega – öll óvissan gerir svo allt miklu erfiðara,“ segir Mur en fjölskylda hennar býr á austurströnd Bandaríkjanna, stutt frá Washington. Jackie og Amber eru hins vegar af vesturströndinni og þaðan var sömu sögu að segja. „Ástandið í Kaliforníu var í raun verra að sumu leyti. Það var eitt af fyrstu ríkjunum sem átti undir högg að sækja og fór í allsherjar lokun. Þær hafa verið að gera það sama og ég, vera heima fyrir utan að æfa eða fara stundum nauðsynlega ferð í matvörubúðina.“

Hvernig gekk að komast til Íslands, var það ekki undarlegt ferðalag þegar fáir eru á ferð? „Jú, ferðin var mjög skrýtin. Eina flugið til Íslands var frá Boston á nokkurra daga fresti. Við þurftum að endurskipuleggja ferðalagið tvisvar eða þrisvar sinnum. Amber er frá San Fransisco svo hún þurfti að fljúga til LA til að hitta Jackie og þær flugu svo saman til Boston. Ég hitti þær síðan á flugvellinum þar en til að forðast flugvelli og spara pening þá var mamma svo yndæl að skutla mér átta tíma rúnt frá Virginíu til Boston. Amber og Jackie segja að flugið frá LA til Boston hafi verið óvenju fámennt og miklu meiri varúðarráðstafanir um borð (grímur og hanskar) en í fluginu okkar til Íslands – sem við vorum allar hissa á.“

Var erfitt að yfirgefa heimaslóðirnar undir þessum kringumstæðum eða hlökkuðu þið til að fara til Íslands? „Ég held að við höfum allar verið æstar í að koma hingað þar sem við erum mjög spenntar fyrir því að fótboltatímabilið hefjist. Síðan er ástandið í heild betra hér en heima.“

Þú fékkst fjölskylduna þína í heimsókn til Íslands síðasta sumar. Áttu von á einhverjum heimsóknum í sumar? „Já, ég hef verið mjög heppin að fá fullt af gestum hingað síðustu tvö sumur. Allir sem hafa komið hafa elskað að vera hér! Foreldrar mínir ætluðu að reyna að koma í viku eða tvær og horfa á leiki en þau hafa komið fjórum sinnum og séð nokkurn veginn allt Ísland. Ég á vinkonu sem hafði keypt flug hingað í ágúst en því hefur verið aflýst svo við erum bara öll að bíða eftir að sjá hvað gerist með vírusinn og hvort það verði jafnvel einhver möguleiki að ferðast á þessu ári. Amber var að vonast til að slatti af hennar fjölskyldu kæmi í júlí og fjölskylda Jackie vonaðist til að geta komið í ágúst.“

Nú eruð þið búnar að vera á Króknum í nokkra daga og eruð í sóttkví. Hvernig látið þið tímann líða? „Fyrsta daginn tókum við upp úr töskunum og komum okkur fyrir í herbergjunum okkar og eyddum góðum tíma í að tala við stelpurnar af svölunum,“ segir Mur en þær stöllur búa í blokkaríbúð á Króknum. „Daginn eftir hreinsuðum við íbúðina og endurskipulögðum, reyndum að finna út hvaða uppsetning á húsgögnunum okkur líkaði best. Við fórum í göngutúr niður í fjöru og spörkuðum aðeins í bolta og svo höfum við gert nokkrar æfingar heima. Við tókum líka með okkur fullt af spilum og litabókum. Svo höfum við eytt góðum tíma í eldhúsinu í að búa til mat og snakk. Amber er alveg geggjaður bakari og galdraði fram gómsætar smákökur í gærkvöldi. Í dag hlupum við úti og nutum útsýnisins yndislega sem Sauðárkrókur býður upp á. Við fórum síðan í jóga og ætlum að skreyta íbúðina meira nú síðdegis.“

Hvernig leggst fótboltasumarið í ykkur? „Við erum allar spenntar fyrir tímabilinu framundan! Ég vonast til að við verðum í sömu stöðu og í fyrra, að berjast um efsta sætið í deildinni og mögulega sæti í efstu deild! Jackie langar til að vera heilbrigð allt tímabilið núna og berjast fyrir sæti í efstu deild. Amber hlakkar til fyrsta tímabilsins erlendis og að kynnast nýrri menningu og leikstíl. Hún vonast líka til að geta hjálpað liðinu að komast upp um deild.“

Þú hefur nánast skorað að gamni þínu fyrir lið Tindastóls síðustu sumur og ég reikna með að önnur lið hafi sóst eftir kröftum þínum. Hvers vegna hefurðu ákveðið að vera áfram með Stólastúlkum? „Mér líður bara eins og heima hjá mér hérna. Knattspyrna er frábær og allt en hún er ekki það mikilvægasta fyrir mig – ég vil vera ánægð þar sem ég er. Ég elska bæinn og útsýnið út á fjörðinn og allt fólkið og stelpurnar í liðinu eru orðnar góðar vinkonur mínar. Mér finnst gaman að hjálpa þessu liði að ná eins langt og mögulegt er og þó að aðrir klúbbar hafi freistað mín þá hefur allt það góða við þennan stað dregið mig hingað aftur,“ segir Mur að lokum.

 Hér má svo sjá nokkrar myndir sem stelpurnar hafa tekið síðan þær komu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir