Mikið um að vera í Sauðárkróksbakarí - Skólakrakkar stungu út smákökur og bökuðu

Eins og sést á meðfylgjandi myndum var heilmargt í gangi í bakaríinu þegar yngstu nemendur Árskóla fengu að taka þátt í bakstri á smákökum. Myndir: Davíð Már.
Eins og sést á meðfylgjandi myndum var heilmargt í gangi í bakaríinu þegar yngstu nemendur Árskóla fengu að taka þátt í bakstri á smákökum. Myndir: Davíð Már.

Það hefur mikið verið að gera í Sauðárkróksbakaríi undanfarnar vikur í aðdraganda jóla og mikið mætt á starfsfólkinu eins og gengur. Hvort það hafi verið til að létta undir með bökurum að bjóða yngstu nemendum Árskóla að taka þátt í jólakökugerðinni skal ósagt látið en að sögn Snorra Stefánssonar, yfirbakara og nýs eiganda Sauðárkróksbakarís tókust þessar heimsóknir stórkostlega vel.

Snorri segir að krakkarnir hafi verið mjög spenntir og ánægðir með að fá að koma í heimsókn og baka. Allir fengu boli gefins merkta Kornax og Sauðárkróksbakarí en Snorri fékk Kornax með sér í lið til að fjármagna bolina. Þá fengu allir djús og mjólk sem vildu og kaffi fyrir foreldrana sem komu.

„Hugmyndin varð til þegar ég og Karsten vorum að tala saman í vinnunni og þá spyr Karsten hvort ekki væri sniðugt að bjóða einum bekk í skólanum í heimsókn og gera eitthvað. Mér fannst hugmyndin góð og eftir smá vangaveltur og pælingar þá endaði það á að bjóða yngsta stiginu í Árskóla í heimsókn;“ segir Snorri um upphafið að þessum skemmtilegu heimsóknum. Nemendur 1.-4. bekkja mættu einu sinni hver bekkur og var boðið upp á ákveðna dagskrá þann daginn. „Það var sem sagt í boði að stinga út smákökur, alls konar í laginu og merktu krakkarnir það sem þeir gerðu. Svo var það bakað og fengu þau að taka það með sér heim, sem þau gerðu. Á meðan á bakstri stóð fengu krakkarnir aðeins að skoða bakaríið, og vinsælast var að láta loka sig inni í frystinum,“ segir hann og það má ímynda sér spenninginn sem hefur verið í hópnum í köldum klefanum.

Norska jólakakan á sínum stað

Eigendaskipti urðu á Bakaríinu í haustbyrjun en Snorri segir engar ítarlegar breytingar hafa átt sér stað við þá breytingu. „Höfum aðeins verið að leika okkur að prófa nokkra nýja hluti og sjá hvernig það leggst í landann. En það eru engin plön ennþá um einhverjar breytingar í stórum mæli. Það er fullt af hugmyndum að flæða en þær koma í ljós hægt og rólega. Og munum við svo gera okkar allra besta til að gera bæjarbúa ánægða eins og þá sem búa fyrir utan bæinn okkar fagra.“

Eins og áður hefur komið fram er mikið að gera fyrir jólin og segir Snorri að allir í bakaríinu hafi gert sitt besta til að undirbúa þau og passa upp á að allir fái sitt uppáhald. „Norska jólakakan okkar er á sínum stað og kemur sterk inn eins og alltaf og komin í bullandi sölu á Sauðárkróki og nágrenni, Akureyri og höfuðborgarsvæðinu. Mömmukossarnir vinsælu standa alltaf fyrir sínu sem og aðrar smákökur sem við gerum. Og svo erum við líka á fullu að gera laufabrauð, bæði venjuleg og rúgmjöls og vil ég meina að þetta líti bara vel út hjá okkur í ár eins og önnur ár á undan.“

Aðspurður hvort hann hafi eitthvað að segja við lesendur Feykis vill þakka öllum fyrir góðar viðtökur eftir eigendaskiptin sem áttu sér stað 1 september. „Það hefði heldur ekki verið hægt nema með góðu samstarfsfólki sem ég er svo heppinn að hafa. Og að lokum vil ég óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir