Nýtt fjós tekið í notkun með pompi og prakt á Syðri Hofdölum

Nýja fjósið er glæsileg bygging. Mynd: Klara Helgadóttir
Nýja fjósið er glæsileg bygging. Mynd: Klara Helgadóttir

Mikið var um dýrðir um síðustu helgi þegar nýtt fjós var tekið í notkun af Hofdalabúinu ehf. á bænum Syðri Hofdölum í Viðvíkursveit. Eigendur að Hofdalabúinu ehf. eru hjónin Trausti Kristjánsson og Ingibjörg Aadnegard, sonur þeirra Atli Már Traustason og kona hans, Klara Helgadóttir, en auk þeirra starfa þau Friðrik Andri Atlason, Lilja Dóra Bjarnadóttir, Aníta Ýr Atladóttir og Trausti Helgi Atlason við búið. 

Það er óhætt að segja að nýja fjósið sé engin smásmíði en það er 2060m2 að stærðog mun vera með stærstu fjósum í Skagafirði. Í því eru legubásar fyrir 156 kýr og kelfdar kvígur og auk þess pláss fyrir 80 kvígur aðrar í uppeldi.

Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin þann 31. mars á síðasta ári og var það því tæpt ár í byggingu. Þykkingar undir súlur og úthring voru steyptar í lok apríl og í byrjun maí var botnplata í haughúsi steypt. Síðasta steypa var svo laust fyrir jól en í verkið fóru um 1.000 rúmmetrar af steypu.

Það var Uppsteypa ehf. sem sá um bygginguna og byggingarstjóri var Trausti Valur Traustason og húsasmíððameistari Helgi Hrannar Traustason en þeir eru báðir synir Trausta og Ingibjargar. Aðrir sem að verkinu komu voru: Víðimelsbræður sem sáu um grunninn og alla jarðvinnu,  Ragnar Þór Einarsson múrarameistari og Hendill ehf., Herbert Hjálmarsson, Guðmundur Brynjar Ólafsson, Tengill ehf., JVB pípulagnir ehf. Húsamálun ehf., Sel ehf., Verslunin Eyri, Vörumiðlun, KS, Landstólpi ehf., og Skaginn 3X sá um háþrýstikerfi. Innréttingar og mottur í legubása koma frá Líflandi, DeLaval mjaltabás, kjarnfóðurbásar og kúaburstar eru frá Bústólpa, viftur og loftræsting frá Kemi, þak, gluggar og hurðir frá Límtré Vírnet, ljósabúnaður frá Rafeiningu og húsið er klætt að utan með klæðningu frá H.Haukssyni. Þá eru í fjósinu Lely flórgoði og Lely Juno heysópur. Margir fleiri lögðu hönd á plóg og eiga kærar þakkir skyldar.

Að sögn ábúenda eru helstu tækninýjungar í húsinu þær að loftræsting er sjálfvirk en hún tekur inn loft á hliðum hússins og sogar út um viftur í þaki og sér loftræstingin um að halda því hitastigi sem óskað er eftir í húsinu. Þá er þar afrúllari framan á liðlétting sem keyrður inn fóðurgang og gefur til beggja handa eftir þörfum, sjálfvirkur fóðursópur sópar heyinu að kúnum en hægt er að stilla hann eftir því hve nálægt hann á að fara og hve oft. Einnig er þar flórgoði sem sér um að halda hreinu og er algengur í nýjum fjósum.

Í tilefni af opnuninni var boðið til veislu í nýja fjósinu á sunnudaginn var og mættu þar um 5-600 manns til að líta á herlegheitin og samfagna eigendunum. 
Myndir: FE

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir