Harmonikuunnendur skemmta sér á Steinsstöðum

Jón Gíslason og Aðalsteinn Ísfjörð þenja nikkurnar á fjölskylduhátíð. Mynd: http://www.harmoniku-unnendur.com/
Jón Gíslason og Aðalsteinn Ísfjörð þenja nikkurnar á fjölskylduhátíð. Mynd: http://www.harmoniku-unnendur.com/

Félag harmonikuunnenda í Skagafirði stendur fyrir fjölskylduhátíð að Steinsstöðum nú um helgina, 21.-23. júní. Dagskráin hefst með dansleik klukkan 21:00 í kvöld þar sem sveiflukóngurinn Geirmundur Valtýsson ásamt Jóa Færeyingi og Aðalsteini Ísfjörð sjá um fjörið.

Félag harmonikuunnenda í Skagafirði var stofnað árið 1992 og hefur það staðið fyrir hátíðinni árum saman. Feykir hafði samband við Sigríði Garðarsdóttur í Miðhúsum, gjaldkera félagsins, og spurði hana um sögu hátíðarinnar. Sigríður segir að þetta sé að líkindum í fjórða sinn sem samkomustaðurinn er að Steinsstöðum en áður var hátíðin haldin í Húnveri í fjölmörg ár, í fyrstu í samvinnu við Húnvetninga. Aðsókn hafi alltaf verið ótrúlega góða en alltaf sé pláss fyrir nýtt fólk og allir séu velkomnir. „Hátíðin er ætluð öllum þeim ungum sem öldnum sem hafa gaman af harmonikkutónlist og að ekki sé nú talað um þá sem hafa unun af að dansa. Þarna mætir fólk úr flestum landshornum, fyllir gólfið, og dansar frá fyrstu tónum til þeirra síðustu.“ Aðspurð að því hvort sambærilegar hátíðir séu haldnar víðar segir Sigríður: „Svona sérvitringahátíðir eru haldnar víða um land allt sumarið og margir fara á milli og dansa og dansa sér til heilsubótar og lífsfyllingar." 

Sigríður segir dagskrána vera fjölbreytta. „Á föstudagskvöldið er ball frá kl 21:00-24:00, þar spilar Geirmundur ásamt Jóa Færeyingi og Aðalsteinn Ísfjörð grípur í nikkuna. Á laugardaginn hefst skemmtidagskrá kl 13:30. Þar koma fram ungir og efnilegir harmonikuleikarar úr sveitinni og frá Sauðárkróki, Arnar, Guðmundur, Ísak og Finnur, söngkonan bráðefnilega Matthildur Ingimarsdóttir og einnig birtist tungulipur pistlahöfundur að nafni Atli Gunnar.

Tríó skipað ungum töffurum úr sveitinni, þeim Óskari, Indriða og Steinari, lýkur svo skemmtunni með því að þeir spila gömlu slagarana á sinn hátt. Svo er ball frá kl 21:00 á laugardagskvöld. Þar sjást og heyrast Miðhúsabræður ásamt Guðrúnu Helgu. Aðalsteinn skreytir kvöldhimininn með tónum og Geirmundur og Jói ljúka svo ballinu um miðnættið á sinn hátt. Ný trommari verður á svæðinu, Sigurður Baldursson í Varmahlíð, og Indriði Benidiktsson grípur í bassann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir