„Þú ert það sem þú borðar“

Grænmetisbuff. Mynd:alberteldar.com
Grænmetisbuff. Mynd:alberteldar.com

"Umsjónarkona þessa þáttar minnist þess að hafa fyrst rekist á hið margtuggna slagorð „þú ert það sem þú borðar“ á veggspjaldi í sveitaskóla á Vesturlandi. Fyrstu hughrifin sem það vakti á þeim tíma var að þá hlyti maður að vera bjúga! Í minningunni voru nefnilega alltaf bjúgu í matinn þegar íþróttamót voru haldin í umræddum skóla. Með öðrum orðum kjöt, salt og mör, ásamt einhverjum bindiefnum, pakkað í plast og reykt við tað. Seinna tók kannski við víðari túlkun á frasanum „að vera það sem maður borðar.“ Með það í hug gróf Feykir upp nokkrar uppskriftir af hollu og góðu haustfæði."
Svo mælti umsjónarmaður matarþáttar Feykis í 37. tbl. ársins 2016.

Aðalréttur
Grænmetisbuff

(Af vefsíðunni alberteldar.com)

2 bollar grænmetishrat (sem verður eftir í safapressunni)
2 bollar soðnar smjörbaunir
½ laukur
4 msk gróft haframjöl
½ bolli góð matarolía
1 msk karrý
salt og pipar

Aðferð:
Saxið laukinn í helmingnum af olíunni, bætið karrýinu út í og léttsteikið. Setjið grænmetishratið, baunirnar, laukinn, helminginn af haframjölinu, salt og pipar í matvinnsluvél og maukið. 
Útbúið bollur eða buff, veltið upp úr haframjöli og steikið í olíu, lengi á hvorri hlið við lágan hita.

Meðlæti
Ofnbakaðir graskersbitar með púðursykurskanill

1 acorn grasker
3 msk góð olía
2 tsk kanill
2 msk púðursykur
1 tsk salt
smá pipar

Aðferð:
Skerið graskerið í tvennt, fræhreinsið og setjið í eldfast form. Blandið saman olíu, kanil, púðursykri, salti og pipar. Hellið yfir graskerið, blandið vel saman og bakið í 30 mínútur við 180°C.
Kjörið meðlæti með flestum mat.

Forréttur eða aðalréttur
Fiskisúpa af fínni gerðinni-með kókos og karrý (fyrir 8)

600 g skötuselur, skorinn í munnbita
600 g lúða, skorin í munnbita
500 g rækjur
1 l fiskisoð (fiskikraftur og sjóðandi vatn, athugið að velja hollan fiskikraft)
2 dl hvítvín (eða mysa)
3-5 dl rjómi
3 stórir skarlottulaukar, skornir fremur fínt
3 hvítlauksgeirar, saxaðir fremur fínt
smjör til steikingar
1 púrrulaukur, saxaður meðalgróft
1 paprika, skorin í bita
3-4 gulrætur, skornar í bita
1 fennika, skorin í bita
3 tsk karrý (t.d. mardraskarrý)
2 msk tómatmauk
fersk basilíka, söxuð meðalgróft
ferskur graslaukur, saxaður fínt
ferskt kóríander, saxað gróft
2 dósir kókosmjólk
salt og pipar

Aðferð:
Fiskisoði, hvítvíni og rjóma hellt í stóran pott, skarlottulauk og hvítlauk bætt út í. Suðan látin koma  upp og leyft að malla í ca. 10-15 mínútur. Á meðan er smjör sett á pönnu og grænmetið steikt á pönnunni ásamt karríinu og tómatmaukinu. Grænmetinu er svo bætt út í súpupottinn ásamt kókosmjólkinni, graslauk og basiliku. Bragðbætt með salti, pipar og meira karrí ef vill, einnig er hægt að bæta út í meiri fiskikrafti ef með þarf. Leyft að malla í dálitla stund. Þá er fisknum bætt út í og hann látinn malla í súpunni örfáar mínútur eða þar til hann er soðinn í gegn. Rétt áður en súpan er borin fram er rækjunum bætt út í. Þegar súpan er borin fram er fersku kórídander stráð yfir súpuna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir