Rabb-a-babb 88: Guðrún Valgeirs

Nafn: Guðrún Jóna Valgeirsdóttir.
Árgangur: 1971. Þess má til gamans geta að það ár varð Sauðárkróksbær 100 ára og Landsmót UMFÍ haldið þar með pompi og prakt. Mamma komst því miður ekki á Landsmótið þar sem ég hélt henni upptekinni uppá fæðingadeild sjúkrahússins, “sorry mamma” J
Fjölskylduhagir: Bý ein-stök með afleggjarana mína tvo, Írisi Lilju Þórðardóttur 15 ára og Valgeir Inga Þórðarson 14 ára.
Búseta: Reykjavík 105 – í Laugardalnum þar sem sólin skín og Þróttarar búa.
Hverra manna ertu: Dóttir Buggu (Pálma og Gunnu) og Valgeirs (Kára og Distu).
Starf / nám: Fylgdi í fótspor feðranna og fór í Kennaraháskóla Íslands. Er því grunnskólakennari – kenni unglingum í Háaleitisskóla ensku og er jafnframt umsjónakennari.
Bifreið: Skódi steisjon, það dugar ekkert minna ef ég á að komast norður í Skagafjörðinn.
Hestöfl: Ha, dingdongdingdong ég skil ekkert um hvað þú ert að spyrja.
Hvað er í deiglunni:  Er að fara í námsferð til Berlínar í júní – hlakka mikið til!

Hvernig hefurðu það? Ég hef það bara alveg ljómandi gott.
Hvernig nemandi varstu? Ég var ágætis námsmaður en alveg örugglega svakalega pirrandi, var eins og útvarp – ég sem kennari hefði líklega kallað mig FM95gjó.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ætli það hafi ekki verið hárgreiðslurnar, herðapúðarnir og veislan. Mamma og pabbi voru ekki alveg búin að klára að byggja en veisluna átti að halda í Háuhlíð 1 “no matter what”. Málverkin á veggjunum voru fengin að láni hjá Silla Elíasar og leit stofan út eins og fínasta gallerí. Svona kunni fólk að redda sér…
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Búðarkona (helst í kjörbúðinni á Króknum).
Hvað hræðistu mest? Svona spurningar.
ABBA eða Rolling Stones? ABBA.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? Voulez Vous með ABBA.
Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? More than words með Extreme. Myndi syngja það með Önnu Pálu Gísladóttur vinkonu minni EÐA Something Stupid með Robbie Williams, myndi syngja það með pabba… það yrði söguleg stund.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? Núna þessa dagana yrði það Homeland. Annars missi ég yfirleitt af öllu í sjónvarpinu og er algjörlega óþolandi í kaffitímanum í vinnunni þar sem ég veit ekkert hvað er að gerast í öllum þessum þáttum. Það eru allir að tala um “Borgen”, ég veit ekki neitt!
Besta bíómyndin (af hverju)?  Ég horfi voðalega sjaldan á bíómyndir. Schindler’s List fannst mér ótrúlega sterk mynd, sagan, litirnir, tónlistin – hreyfði mikið við mér. Pay it forward finnst mér mjög merkileg því þar er hægt að finna skýra skírskotun í Biblíuna, falleg saga með fallegan boðskap. Að lokum ætla ég að nefna Oliver Twist sem er klassísk saga skrifuð á tímum iðnbyltingarinnar, söguleg og merkileg skáldsaga. Annars er ég að klára námskeið í kvikmyndalæsi þessa dagana þannig að svarið mitt verður líklega allt annað eftir 2-3 vikur því þá veit ég svo roooosalega miklu meira en ég veit í dag J
Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Er best af öllum í því að brjóta saman þvott!
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Allt sem ég geri þar er snilld, mamma segir það! Sérhæfi mig í kjúklingaréttum, salötum og heilsudrykkjum. Nýbúin að fara á Sushi námskeið… spennandi tímar framundan.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann?  Gúrka! Á yfirleitt 3-6 gúrkur í ísskápnum. Hversu furðulegt er það?
Hvað er í morgunmatinn? Á góðum dögum “boozt” úr möndlumjólk, spínati, mango, bönunum, chia-fræjum, döðlum og hörfræolíu. Hina dagana er það engiferte og banani hjá mér og Special K m/bönunum hjá börnunum.
Hvernig er eggið best? Linsoðið eða “egg í gati”.
Uppáhalds málsháttur?  Ég geri ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Simpson fjölskyldan er alltaf í uppáhaldi.
Hver er uppáhalds bókin þín?  Er nýbúin að lesa Hungurleikana (fannst ég verða að gera það þar sem ég kom að syninum að stelast til að lesa langt fram á nótt). Þrusugóð bók fyrir unglinga á öllum aldri. Er byrjuð á bók nr. 2.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...í heimsreisu um Asíu og Afríku með börnin mín.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Að ég kunni ekki almennilega að slaka á L
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki og metnaðarleysi.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Ég hef alltaf haldið að ég sé United manneskja, af hverju veit ég ekki. Ætti að vera harður Chelsea aðdáandi þar sem ein af fyrirmyndum mínum (pabbi) er það… held ég sé bara voðalega afslöppuð í enska boltanum. Áfram Tindastóll og Lifi Þróttur er alveg nóg fyrir mig. Er “oggupons” Framari líka þar sem ég kenni í Fram-hverfinu og nemendur mínir (núverandi og fyrrverandi) allir Framarar.
Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Pabba og börnunum mínum J Fyrir utan fjölskylduna þá er það líklega Guðjón Valur og Stella Sig í handboltanum. Hólmar Örn Eyjólfs., Hörður Björgvin Magnússon, Annie Mist, Vanda Sig… úff, mér finnst svo margir frábærir, get ekki nefnt neinn einn/eina.
Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Forfeður mínir koma upp í hugann, annars væri ég ekki til og væri ekki það sem ég er.
Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Skó, bókina um Róbinson Crusoe og áherslupenna til að strika undir það sem ég þarf að muna til að lifa af.
Hver væri titillinn á ævisögu þinni? “Ekki dugar að drepast”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir