Ég var í tónlistarlegu uppeldi hjá frændum mínum / SIBBI

Sibbi og Gubbi stinga saman nefjum á VSOT sumarið 2012.
Sibbi og Gubbi stinga saman nefjum á VSOT sumarið 2012.

Að þessu sinni er það Sigurbjörn Björnsson, sem svarar spurningum varðandi tón-lyst. Sibbi er fæddur 1963 og alinn upp á Króknum þar sem hann býr enn. Hann segist vera hljóðfæraeigandi en helstu afrek hans á tónlistarsviðinu er þátttaka í Lúðrasveit Tónlistaskóla Sauðárkróks og Lúðrasveit Sauðárkróks auk þess sem hann var rótari hjá Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og hjá Magnúsi Kjartanssyni. 

Uppáhalds tónlistartímabil?  1960 - 1980.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Gott rokk og góður blús.

Hvers konar tónlist var hlustað á  þínu heimili?  Ég var í tónlistarlegu uppeldi hjá frændum mínum á Hólaveginum, Viðari og Hilmari  Sverrissonum. Þar var hlustað á allt það nýjasta. Þetta er árin 1969- 1976.

Hvað var fyrsta platan/diskurinn/kassettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Það var kassetta með Júdas sem heitir Júdas no1.

Hvaða græjur varstu þá með? Hitashi kassettutæki sem við bræður áttum [innsk. Sverrir og Pétur].

Hvað syngur þú helst í sturtunni?  Smoke on the Water.

Wham! eða Duran? Nei. Deep Purple.

Uppáhalds Júróvisjónlagið (erlent eða innlent eða bæði)?  Waterloo / Sólarsamba.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Good Time Bad Time með Led Zeppelin.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Climax Blues Band.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi til London á Clapton í Royal Albert Hall á. Ætli ég myndi ekki taka hana Báru mína með.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mig hefur ekki dreymt um að vera neinn tónlistamaður heldur hefur mig langað að vera rótari hjá böndunum. Ég kann það betur en að spila á hljóðfæri. Það hefði til dæmis verið gaman að fara einn túr með  Led Zeppeline  eða Stones.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út?  Á Íslandi er það Lifun með Trúbroti en erlendis White Album Bítlanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir