75 ára afmælishátíð Byggðasafns Skagafjarðar á annan í hvítasunnu

Byggðasafn Skagafjarðar fagnar 75 ára afmæli mánudaginn 29. maí og í tilefni af því verður blásið til afmælishátíðar í Glaumbæ þann sama dag frá kl. 14:00 til 17:00. Það verður heldur betur þétt dagskrá fyrir sem hentar bæði ungum og öldnum til dægrastyttingar á annan í hvítasunnu.

„Smáframleiðendur verða með gómsætar veitingar og býðst ungum gestum að fara á hestbak á hestum frá Syðra-Skörðugili. Prúðbúnar Pilsaþytskonur verða á svæðinu, Margrét á Mælifellsá spinnur úr hrosshári við kveðskap Hilmu Bakken í Kvæðamannafélaginu Gná. Helgi Sigurðsson sýnir handtök við torfhleðslu, Bjössi Sighvatz, Jón Egill og Guðmundur Stefán sýna eldsmíði og eigendur íslenskra fjárhunda verða með okkur.“  Segir í tilkynningu frá Byggðasafninu.

Dansfélagið Vefarinn mun stíga á stokk og taka nokkra dansa á milli kl. 15:00 og 15:30 en það er félagsskapur hressra manna og kvenna frá Akureyri og nágrenni sem hefur þann megintilgang að sýna Íslenska þjóðdansa og aðra sýningadansa.

Skagfirski Kammerkórinn mætir síðan klukkan 16:00 og syngur nokkur lög en hann þarf vart að kynna frekar.

Þrjár nýjar sýningar verða opnaðar afmælishátíðinni. Í Áshúsi verður sýningin „Byggðasafn Skagfirðinga í 75 ár“ og í Gilstofu verður skráning Byggðasafnsins á skagfirskum torfhúsum undir yfirskriftinni „Hér stóð bær“ ásamt því að sögu Gils- og Briemsstofu verður gerð skil.

Þetta og fleira á afmælishátíðinni. Komið og eigið skemmtilegan sumardag með okkur! Hlökkum til að sjá ykkur í Glaumbæ!

Aðgangur ókeypis fyrir alla safngesti á meðan á viðburðinum stendur.

Viðburðurinn er styrktur af safnasjóði.“

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir