Ágæt frammistaða en engin stig til Stólastúlkna

Donni þjálfari íbygginn snemma leiks. MYND: FÓTBOLTI.NET/HAFLIÐI BREIÐFJÖRÐ
Donni þjálfari íbygginn snemma leiks. MYND: FÓTBOLTI.NET/HAFLIÐI BREIÐFJÖRÐ

Breiðablik og Tindastóll mættust í dag á Kópavogsvelli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Blikar unnu góðan sigur í fyrstu umferð á meðan Stólastúlkur máttu sætta sig við svekkjandi tap fyrir FH í leik þar sem þær áttu meira skilið. Eins og reikna mátti með í dag voru heimastúlkur talsvert sterkari í leiknum, fengu mörg færi til að skora en lið Tindastóls fékk sömuleiðis góð færi en fór illa að ráði sínu. Lokatölur urðu 3-0 fyrir Breiðablik og lið Tindastóls því án stiga og marka að loknum tveimur leikjum.

Lið Blika er að sjálfsögðu eitt best spilandi lið landsins og hefur verið spáð góðu gengu í vetur. Stólastúlkur máttu eiga það að þær reyndu að spila upp völlinn en Blikar voru talsvert meira með boltann en vörn Tindastóls gaf fá færi á sér. Fyrsta markið kom eftir 17 mínútur og þar var á ferðinni Vigdís Lilja. Eftir það sem virtist slök hornspyrn datt boltinn dauður við nærstöngina og Vigdís var snögg að átt sig og lyfti boltanum í mark Tindastóls af stuttu færi. Gestirnir reyndu að koma sér inn í leikinn og sköpuðu sér sénsa en næst komst Jordyn því að skora, fékk fína sendingu frá Laufeyju inn á teiginn en Telma varði mjög vel í marki Blika. Áður hafði Jordyn átt tvö máttlítil skot og Birgitta átti fyrirgjöf sem sveif rétt yfir.

Blikarnir sóttu enn stífar í síðari hálfleik og það var líkt og þær óttuðust að Stólastúlkur mundu hegna þeim ef þær bættu ekki við marki. Á 61. mínútu björguðu Stólastúlkur á línu eftir hornspyrnu en eftir þetta færðist aðeins meira líf í sóknir Tindastóls þó áfram væri líklegra að næsta mark yrði Blika. Þær settu boltann í stöngina á 80. mínútu en þremur mínútum síðar kom besta færi leiksins og það var gestanna. Jordyn náði þá að stinga inn fyrir vörn Blika og þar var Hugrún mætt á auðum sjó. Fyrsta snerting var kannski ekki nógu góð og hún fór of nálægt Telmu í markinu sem varði skot Hugrúnar. Blikar unnu boltann og skoruðu hinum megin. Þar var á ferðinni Andrea Rut sem náði að plata Bryndísi og setja boltann óverjandi í markið. Strax í kjölfarið skullu Telma og Jakobína í liði Blika saman og leikurinn var stöðvaður í tíu mínútur. Það reyndist því nægur uppbótartími fyrir Jordyn til að fara illa með frábært færi og Öglu Maríu til að gera þriðja mark Blika.

Úrslitin voru sanngjörn en það voru færi fyrir lið Tindastóls til að stríða heimaliðinu og hefði verið áhugavert að sjá hvað hefði gerst hefði Hugrún náð að jafna þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Líkt og í leiknum gegn FH var lið Tindastóls að skapa sér nokkur frábær færi en það er eins og sjálfstraustið vanti fyrir framan markið. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir