Ákvörðun tekin um að stytta lokun Endurhæfingarsundlaugar HS
Til stóð að loka Endurhæfingarsundlaug HS frá 2. júní til og með 17. ágúst, eins og fram kom í frétt sem birt var á Feyki.is í síðustu viku, en hefur sú ákvörðun nú verið endurskoðuð að sögn Hafsteins Sæmundssonar forstjóra HS. „Við höfum, vegna óska þar um, ákveðið að stytta þann tíma sem lokað verður í sundlaug í sumar og miða lokun við þann tíma sem óhjákvæmilegur er vegna framkvæmda.“
Endurhæfingin og sundlaugin á Heilbrigðisstofnuninni hefur mikið verið í umræðunni undanfarið en að sögn Hafsteins hefur starfsfólki verið fækkað þar á undangengnum árum. Skýringuna segir hann að mestu liggja í því að þar hafi sjúkrarýmum verið fækkað úr 15 í 8 og hjúkrunarrýmum úr 56 í 41.
„Sjúkraþjálfarar okkar og aðrir starfsmenn endurhæfingar hafa fyrst og fremst sinnt íbúum á hjúkrunarheimili og sjúklingum í sjúkrarýmum. Það er því ekki óeðlilegt að umsvif í endurhæfingu hafi minnkað. Samt sem áður vil ég fullyrða það að HS veitir betri þjónustu á þessu sviði en gengur og gerist annars staðar,“ segir Hafsteinn í samtali við Feyki.
Hann segir víða hafa verið þrengt að í rekstri stofnunarinnar á undangengnum sex árum og fólki fækkað umtalsvert á þeim tíma. „Það er víða sem við þyrftum að geta gert betur í mönnun en nú er en því miður leyfir fjárhagurinn það ekki. Skóinn kreppir víða í stofnuninni en það er ekki fyrst og fremst í starfsemi endurhæfingar sem það er og því er það undarlegt að umræðan snúist fyrst og fremst um þennan þátt starfseminnar sem er lítið brot af starfi okkar í heild.
Hjá okkur starfa nú einungis þrír fastráðnir læknar en þeir hefðu þurft að vera fimm og ekki hefur borist nein umsókn í lausar stöður lækna þrátt fyrir auglýsingar þar um. Við erum knöpp í mönnun á hjúkrunar- og sjúkradeildum og má ekkert út af bera þar. Við hefðum gjarnan viljað veita betri þjónustu á sviði sálgæslu og geðlækninga. Ég get talið fleira til sem hefði verið æskilegt að þjónusta íbúa Skagafjarðar um en við getum ekki, eins og er, boðið upp á.“
Hafsteinn segir vonir standa til að nú verði Heilbrigðisstofnuninni úthlutað nokkrum hjúkrunarrýmum í viðbót og væntir hann þess að það muni bæta afkomu stofnunarinnar í heild þótt það dugi ekki án frekari aðhaldsaðgerða til að koma rekstrinum í jafnvægi. Áfram verður haldið úti starfsemi í Endurhæfingarhúsi, bæði í sundlaug og æfingasal, og segist hann telja hana þokkalega mannaða þrátt fyrir niðurskurð.