Aldís María sterkust í 15. umferðinni

Aldís María var óstöðvandi í leiknum gegn ÍBV. MYND: ÓAB
Aldís María var óstöðvandi í leiknum gegn ÍBV. MYND: ÓAB

Biblía knattspyrnunördanna, Fótbolti.net, velur ávallt leikmann umferðarinnar í boltanum. Leikmaður 15. umferðar í Bestu deild kvenna var valin Aldís María Jóhannsdóttir og varð hún þar með fyrst Tindastólsstúlkna til að hljóta nafnbótina Sterkust þetta sumarið. Leikur Stólastúlkna í 15. umferð var gegn liði ÍBV á Króknum og skoraði Aldís María tvö mörk í sterkum 4-1 sigri.

„Tvö mörk sem voru bæði uppskeran af virkilega góðum hlaupum. Tók mörg góð hlaup og gerði vel að koma sér í fín færi," sagði Laufey Harðardóttir í skýrslu sinni frá leiknum sem birtist á Fótbolti.net.

Aldís María, sem er fædd árið 2001, hefur spilað 14 leiki í Bestu deildinni í sumar og skorað þrjú mörk. Hún er leiftursnögg og í umræddum leik var hún að vinna afar vel með Murielle á toppnum í sókninni. Aldís hefur verið að spila vel með liði Tindastóls í sumar og má fullyrða að hún hafi aldrei verið betri. Hún gekk til liðs við Tindastól árið 2000 og hefur spilað 69 leiki fyrir liðið í deild og bikar ef eitthvað er að treysta á samlagningargetu blaðamanns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir