Bíódíselstöð að rísa á Sauðárkróki
Framkvæmdir á lóð einni við Borgarteig á Sauðárkróki hafa vakið athygli. Þar mun innan skamms rísa bíódísel stöð á vegum fyrirtækisins Íslensks eldsneytis. Blaðamaður Feykis mælti sér mót við Sigurðs Eiríksson, stjórnarformann fyrirtækisins, og fékk að heyra um áform þeirra og hvað þetta þýddi fyrir hinn skagfirska bíleiganda.
„Við erum bara að byrja með hér með eldsneytissölu, eina af þeim fyrstu úti á landi. Við munum bjóða lítrann á rétt innan við 200 krónur og þetta þýðir því um 40 króna lækkun á lítrann fyrir hvern þann sem ekur um á díselbíl,“ sagði Sigurður þegar blaðamann bar að garði. Engar breytingar þarf að gera á bílunum að sögn Sigurðar. Einnig verður hægt að hlaða rafmagnsbíla á hinni nýju stöð.
Sigurður segir um mánuð í að stöðin verði opnuð. Um er að ræða repjuolíu, sem framleidd er í Keflavík úr innfluttri repju frá Svíþjóð og Holland, en í dag er repja ræktuð á Íslandi í mjög litlum mæli, enda veðráttan ekki sérlega hagstæð til slíkrar ræktunar.
Íslenskt eldsneyti á í samstarfi við Allra Handa rútufyrirtæki í Reykjavík, sem notar nú olíuna á rútur sínar. Verkefnið hefur verið í þróun í eitt og hálft ár í samstarfi við sænskt fyrirtæki, að sögn Sigurðar.
En af hverju Sauðárkrókur?
„Ég er búin að búa lengi erlendis en er svona að færa mig meira og meira hingað,“ segir Sigurður sem á næstunni flyst búferlum á Krókinn og segir að sér líði ákafalega vel að vera þar.“ Hann segir að auk stöðvarinnar sem nú er að rísa standi til að rannsóknarstarfsemin fari fram á Sauðárkróki.
Íslenskt eldsneyti er að þróa vinnslu olíu úr þörungum, en slíkar verksmiðjur þekkjast víða erlendis. Sigurður segir áhuga sinn á verkefninu eiga sér 20 ára aðdraganda. Hann hafði kynnst vinnslu þörunganna þegar hann bjó erlendis. „Og svo borðaði ég söl í æsku, þannig byrjar þetta kannski,“ bætir hann við. Sigurður segir jafnframt að koltvísýring, sem víða er mjög aðgengilegur hérlendis, skapi góð skilyrði til vaxtar fyrir þörunganna. Hann segir þó að hér í Skagafirði séu ekki hagstæð skilyrði fyrir ræktun þörunganna, en hann kjósi að rannsóknarvinna fari hér fram.
En er Sigurður bjartsýnn á að takist að kenna Skagfirðingum að skipta út díselolíu fyrir repjuolíu?
„Þetta er langtímaverkefni, við lítum á það þannig, þetta er ekki eitthvað sem skeður einn, tveir og þrír. En ef það er aldrei gert eitthvað nýtt, þá yrðu engar framfarir.“