Formleg opnun Dugs, húsnæðis Krabbameinsfélags Skagafjarðar, í dag
Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur boðað til formlegrar opnunar húsnæði þess á neðri hæð Suðurgötu 3 á Sauðárkróki, Framsóknarhúsinu, í dag á milli klukkan 16 og 18. Vonast stjórn félagsins til að sem flestir sjái sér fært að mæta og njóta samverunnar en minnir á fjarlægðartakmörk og grímuskyldu.
„Fyrir rúmu ári síðan opnaði þjónustumiðstöðin Dugur, fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Hingað getur fólk komið og hitt aðra sem deila svipaðri reynslu. Það getur eflt fólk til þátttöku í daglegu lífi og veitir stuðning og afþreyingu. Starfið fór ágætlega af stað síðastliðið haust en vegna COVID og fjöldatakmarkana var starfsemin skert, t.d. höfum við frestað formlegri opnun ítrekað. Einnig var það auglýst lítið vegna óvissu á ástandinu. En við horfum björtum augum á framtíðina og stefnum á fjölbreytta starfssemi eftir áramót,“ segir María Einarsdóttir, iðjuþjálfi og starfsmaður Dugs en hún útskrifaðist sem iðjuþjálfi árið 2012 frá Háskólanum á Akureyri og hefur sinnt ýmsum störfum frá útskrift.
María Einarsdóttir, iðjuþjálfi
og starfsmaður Dugs
„Það sem heillaði mig við iðjuþjálfun er m.a. að vinna með fólki, koma því aftur út í lífið og gefa af mér. Hjálpa. Finna leiðir sem henta fyrir hvern og einn. Hugmyndafræði iðjuþjálfa byggir m.a. á því að hafa eitthvað fyrir stafni sé jafn mikilvægt og að draga andann. Þegar fólk verður fyrir áfalli t.d. að greinist með krabbamein er mikilvægt fyrir það að huga að sjálfum sér. Setja sig í fyrsta sæti og ná upp krafti til að takast aftur á við lífið. Einnig er mikilvægt að huga að félagslega þættinum svo fólk einangrist ekki. Fara út á meðal fólks og finna fyrir stuðningi frá öðrum og efla þannig andlegan, félagslegan og líkamlegan þrótt. Þetta er m.a. markmið okkar með stofnun Þjónustumiðstöðvarinnar Dug.“
Hún segir Dug einnig stað fyrir aðstandendur þeirra sem greinst hafa með krabbamein en oft er það ekki sá sem greinist sjálfur sem líður verst andlega og því getur það verið gott að hitta einhvern og koma orðum á tilfinningar sínar og fá stuðning og fræðslu.
„Misjafnt er hvort og hvenær aðstandendur leita sér stuðnings í veikindaferlinu. Stundum er það ekki fyrr en langt er liðið frá meðferð og veikindum eða ef veikindi taka sig upp aftur. Hvenær sem er hvetjum við fólk til að hafa samband við okkur eða aðra sem veita stuðning af þessu tagi,“ segir María.
Dagskrá janúar - apríl 2022
Dagskráin eftir ármótin verður fjölbreytt og segir María að ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Boðið er upp á hópastarf, fræðslu og einstaklings viðtöl og fræðsla verður einu sinni í viku, í hádeginu á miðvikudögum. „Þá munum við koma saman og fá okkur léttan hádegisverð og hlusta á fræðsluefni. Á undan fræðslunni verður farið í hressandi göngutúr. Hóparnir eru nokkrir, prjóna- og handavinnuklúbbur á mánudögum, spilahópur á fimmtudögum og karlakaffi á föstudögum. Vil endilega nýta tækifærið og hvetja karlana okkar til að kíkja í kaffi á föstudagsmorgnum. Einstaklingsviðtöl eru fyrir þá sem vilja og eru ætluð sem stuðningur og ráðgjöf. Einnig munum við vera með tímabundna hópa í vetur s.s. hópa fyrir aðstandendur o.fl.
María segir að um prufuverkefni til eins árs sé að ræða en vonar að það sé komið til að vera. „Viljum við því hvetja fólk til að mæta og nýta sér þessa þjónustu. Það er snúið að fara af stað með svona verkefni í miðjum heimsfaraldri, en við gerum okkar besta. Húsnæðið er nógu stórt svo fólk getur dreift úr sér og haldið fjarlægð. Við viljum endilega heyra í þeim sem ekki treysta sér til að mæta. Síminn hjá okkur er 453-6030 og e-mailið er skagafjordur@krabb.is. Vil einnig taka það fram að fólki er velkomið að taka með sér aðstandenda, vin eða ættingja í hópastarfið. Svo langar mig að minna á að notum mikið Facebook-síðu Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Allar upplýsingar fara þar inn.“