Kári heldur farinn að róa sig
Það var ansi hreint hvasst í Skagafirði í nótt, 18 m/sek á Bergsstöðum klukkan 6 í morgun en 11 stiga hiti. Vindurinn er þó hægt og sígandi að bremsa sig niður og síðdegis í dag er gert ráð fyrir að hann fari aðeins þetta 3-8 metra á sekúndu. Um leið kólnar og gerir Veðurstofan ráð fyrir 3-5 stiga hita með kvöldinu.
Í rokinu milli kl. 8 og 9 í morgun mátti skemmta sér við að dást að litum himins og ekki síður skýjanna sem skunduðu bleik, koxgrá og fjólublá á festingunni. Krummarnir virtust kunna að njóta vindsins þó þeim hafi kannski ekki gengið nógu vel að hitta á ljósastaurana til að fylgjast með furðukúnstum mannfólksins.
Hér er eitt skot upp í loftið sem aðeins hefur verið fiktað við í fótósjopp. Já, það er margt í mörgu.