Krúttlegur hryllingur í Bifröst | Kristín Einars kíkti í leikhús

Leikarahópurinn baðar sig í lofi leikhúsgesta að lokinni sýningu. MYNDIR: KSE
Leikarahópurinn baðar sig í lofi leikhúsgesta að lokinni sýningu. MYNDIR: KSE

Væntingum var verulega stillt í hóf þegar undirrituð lagði leið sína í Bifröst á sunnudagskvöldið. Ekki var það á nokkurn hátt vantrú á hæfileika skagfirskra áhugaleikara eða leikhúsfólks í Firðinum sem réði því, heldur miklu frekar áhyggjur af því að ein af sterkustu leikhúsupplifunum æsku minnar trufluðu þessa upplifun sem í vændum var. Ég var nefnilega rétt að detta í tólf ára aldurinn þegar ég sá fyrstu uppsetningu verksins hér á landi í Gamla bíói. Þar voru Leifur Hauksson, Edda Heiðrún, Gísli Rúnar og Laddi meðal leikara og Björgvin Halldórsson léði plöntunni rödd sína. En ég var fljót að ýta þeim áhyggjum til hliðar og naut hverrar sekúndu í Bifröst. Þvílík fagmennska og flottur hópur sem þarna lét ljós sitt skína! Það er kannski klisjukennt að tala um að toppa sig, en það gerði Leikfélag Sauðárkróks svo sannarlega með þessari sýningu.

Hvar á maður að byrja? Líklega er best að byrja á því að taka ofan fyrir leikstjóranum sem skapar þessa stórkostlegu heild. Sviðsmyndin í einfaldleika sínum á sinn þátt í að litríkir og vel heppnaðir búningarnir fá að njóta sín. Þaulreynt búningateymið sem hefur saumað ófá sporin í Bifröst skapar skemmtilegar samstæður og andstæður, þar sem flestir leikarar skipta um búninga á meðan á sýningu stendur, jafnvel oftar en einu sinni. Lýsingin er mjög afgerandi þáttur í þessari sýningu, með eltiljósum, litum og alls kyns kúnstum. Þá verður að hrósa hljóðgæðunum sérstaklega. Tæknimennirnar leggja svo sannarlega sitt af mörkum. Það segir kannski allt sem segja þarf um hversu flókið og viðamikið er að setja upp svona sýningu, að myndirnar af fólkinu á bakvið tjöldin fylla heila blaðsíðu í leikskránni, hvorki meira né minna en þrjátíu manns.

Ekki veit ég hvort fullæfð leikverk hafa gott af því að liggja í bleyti og marinerast eins og grillkjöt. Hitt finnst mér líklegra að það sé talsverð áskorun að halda dampi með fullæft stykki sem ekki er hægt að sýna fyrr en tveimur vikum seinna, vegna veikinda. En hafi einhver úr leikhópnum ennþá verið að glíma við eftirköst af veikindum var það ekki að sjá framan úr sal. Þetta unga hæfileikaríka fólk rúllaði hverju atriðiðinu af fætur öðru upp og uppskar mikið klapp og aðdáun úr salnum. Ég leyfi mér að segja „unga fólk“ þó Guðbrandur, sem má orðið kalla eins konar föður og afa skagfirskrar leiklistar, hafi verið þeirra á meðal. En þegar rýnt er í leikskrána má raunar sjá að unga fólkið er líka orðið að reynsluboltum. Mörgum þeirra hefur maður fylgst með í upplestrarkeppnum, grunnskólaleikritum, framhaldsskólaleikritum og söngkeppnum. Ómetanlegt að þau fái þessi tækifæri og stigi svo fullsköpuð fram og beri uppi heilan söngleik. Hestamennirnir myndu líklega segja að þarna færi saman góð ræktun og góð þjálfun.

Öll kóreógrafía í sýningunni er sérlega flott. Söngur Kristeyjar Rutar, Herdísar Maríu, Hildar Rósar og Möru Rere, sem syngja nokkur lög saman, hljómar frábærlega. Þær eru sérlega vel samhæfðar en söngþjálfun var í höndum Sigurlaugar Vordísar. Þess má geta að Mara er 16 ára skiptinemi frá Þýskalandi, sem bæði leikur og syngur á íslensku í sýningunni. Englarödd Emelíönu Lillýar nýtur sín vel og Ingi Sigþór er hreint frábær í burðarhlutverki Baldurs. Frændi hans og bróðir Lillýar, Eysteinn Ívar, er stórkostlegur og afar sannfærandi sem hinn sadíski tannlæknir. Guðbrandur túlkar líka Músnik blómabúðareiganda á skemmtilegan hátt. Þá fannst mér strákarnir í „minni“ hlutverkunum allir ná að skapa eftirminnilegar persónur. Þar má nefna nýliðann Martein Breka í hlutverki rónans, Harald Má, sem heillaði marga upp úr skónum sem Dúddi í sýningu FNV á Með allt á hreinu, Hlífar Óla í hlutverki pólska sóparans og Helga Hrannar í hlutverki útvarpsmannsins. Hann stýrir líka hreyfingum plöntunnar og skilar því vel. Til að byrja með var ég dálítið efins um að hafa rödd plöntunnar sýnilega, en Alex Bjartur bætir miklu við með skemmtilegri túlkun sinni, sem ekki hefði skilað sér með röddina staðsetta baksviðs. Ekki er alveg ljóst af leikskrá hvort plantan er heimatilbúin eða fengin að láni hjá einhverju leikhúsanna. Hvort heldur sem er nýtur hún sín vel og tæknileg útfærsla á tilveru hennar er vel leyst, ekki síst í mögnuðu atriði þar sem átök Auðar I og II eiga sér stað. Til að spilla ekki fyrir skal annað ósagt um söguþráð sýningarinnar.

Allt saman skilar þetta upplifun sem kalla mætti krúttlegan hrylling og hrífur mann með sér í töfraheim eina kvöldstund. Heilt yfir má segja að þetta fjörtíu ára leikverk þeirra Howard Ashman og Alan Menken, hafi elst vel. Smellnar þýðingar Gísla Rúnars og söngtextar Megasar eru gersemi, enda voru lögin mörg hver gerð ódauðleg á níunda áratugnum.

Litla hryllingsbúðin er orðið sannkölluð klassík, sem Leikfélagi Sauðárkróks tekst ágætlega að ljá ákveðinn ferskleika í þessari nýjustu uppfærslu. Nágrannar okkar hér í norðrinu, sem ætla að setja hryllingsbúðina upp í haust, mega hafa sig alla við að toppa þetta!

- - - - - -
Kristín Sigurrós Einarsdóttir kíkti í leikhús að beiðni Feykis og er henni þakkað fyrir gott starf. Hún tók einnig myndirnar, sem hér fylgja, fyrir og eftir sýningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir