Pavel stýrir körfuboltafjöri ULM í dag

Pavel með allt undir kontról. MYND AF SÍÐU UMFÍ
Pavel með allt undir kontról. MYND AF SÍÐU UMFÍ

Unglingalandsmótið 2023 fór á fulla ferð á Króknum í gærmorgun og ótal dagskrárliðir í gangi. Það vakti athygli að Pavel Ermolinski, þjálfari Tindstóls í körfuknattleik, var dómari í keppni í körfuknattleik en sjá mátti frétt þess efnis á netsíðu UMFÍ. Pavel, sem er margfaldur meistari, tók við liði Tindastóls í byrjun árs og gerði liðið að Íslandsmeisturum í vor eins og flestum er enn í fersku minni. Enda í fysta sinn sem Tindastóll hampaði meistaratitlinum og í fyrsta sinn sem lið af Norðurlandi verður Íslandsmeistari í körfubolta.

Á síðu Unglingalandsmótsins er ekkert sagt um hvort Pavel hafi sýnt meistaratakta með flautuna en fram kemur að hann mun seinni partinn í dag stýra körfuboltafjöri á Unglingalandsmótinu.

Körfuboltafjörið verður á milli klukkan 18:00 – 19:00 á körfuboltavellinum við Árskóla. Þetta er breyting frá áður auglýstri dagskrá.

Mótið var sett við glæsilega athöfn klukkan átta í gærkvöldi við kjöraðstæður. Það var milt veður og stillt og í kjölfar setningar var fimleikafjör og um tíuleytið hóf hin ofurhressa Danssveit Dósa að spila í Landsmótstjaldinu góða. Keppni hefst á ný kl. 9 að morgni laugardags og Veðurstofan gerir ráð fyrir ágætu keppnisveðri um helgina, björtu og stilltu, hitinn dansar í kringum tíu gráðurnar í dag en á sunnudag er reiknað með að hitinn nái jafnvel 17 gráðum. Það er að sjálfsögðu möguleiki að þokan skríði yfir Krókinn en það gæti þó þurft að kaupa sólarvörn í dag...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir