Rændi skrifblokk af miðasölumanni í Metró

Áróra og Tommaso. MYNDIR AÐSENDAR
Áróra og Tommaso. MYNDIR AÐSENDAR

Síðast stoppaði Dagurinn hjá Pálínu Ósk og Ísaki Einars skammt utan við Osló. Við kveðjum þau með virktum og ímyndum okkur að við röltum með bakpokann upp á veg, húkkum okkur far niður á höfn í norsku höfuðborginni og stökkvum síðan um borð í ferju á leið til Kaupmannahafnar. Siglum út lognsléttan og ofurfallegan Oslófjörð í síðdegissólinni, sofum af okkur smá velting á Norðursjónum yfir nóttina og komum síðan óstöðug af sjóriðu í land á Islands Brygge í Köben. Þar tekur Áróra Árnadóttir á móti okkur brosandi og fylgir okkur heim til sín þar sem við getum sest niður og náð áttum. Sem betur fer er stutt heim – hún býr á Islands Brygge.

Kannski leggur Oslóferjan ekkert upp að við Islands Brygge en þannig er það í þessari ímynduðu veröld af því að það hentar frásögninni. Áróra er dóttir Elenóru Jónsdóttur og Árna Gunnarssonar, kennara og lífskúnstnera á Króknum. Hún verður 25 ára á þessu ári og er næstelst fjögurra systkina. Í Kaupmannahöfn býr hún með ítalska kærastanum sínum, Tommaso Ismail, en þau vinna saman og kynntust á veitingastaðnum Levi, hún þjónn en hann kokkur. Áróra er sannur Íslendingur og lætur að sjálfsögðu ekki duga að vinna sem þjónn því hún er nú á síðasta árinu sínu í námi í félagsráðgjöf, vinnur í athvarfi Bláa krossins fyrir heimilislausa og í verslun H&M.

Við hefjum viðtalið á að spyrja Áróru að því hvernig ævintýri hennar í Danmörku hófst. „Þetta byrjaði allt með því að ég fór í Den Rytmiske Højskole árið 2021 sem er rétt utan við Kaupmannahöfn. Ég ætlaði að vera eina önn í tónlistarlýðháskóla, sem varði sex mánuði, en út af Covid þá styttist sá tími um helming. Undir lok annarinnar var ég alls ekki tilbúin að fara heim, þannig að ég ákvað að taka eina önn í viðbót. Sem var æðislegt. Um jólin 2021 var önnin svo búin og ég þurfti að ákveða hvað væri næst. Mínir kostir voru að flytja til Reykjavíkur eða til Köben. Ég hugsaði með sjálfri mér að nú kynni ég dönsku, ætti helling af vinum hérna og það er ókeypis að læra hérna – maður fær reyndar borgað fyrir að læra hérna ef nánar er út í það farið. Þannig ég ákvað bara að láta á þetta reyna. Núna er ég á mínu seinasta ári í félagsráðgjöf, er að vinna, er með æðislegan kærasta, æðislega vini og sé ekki eftir neinu.“

Er einhver falleg saga á bak við hvernig þið Tommaso kynntust? „Við kynnumst í vinnunni, á veitingastaðnum Levi. Hann var ráðinn sem kokkur þegar ég var búin að vinna á Levi í rúmt ár. Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn en við skulum bara orða það þannig að það liðu kannski tvær vikur þang-að til við byrjuðum að deita. Hann er frekar feiminn en ég vissi að hann væri eitthvað skotinn í mér þannig ég bauð honum í bjór eftir vinnu einn daginn. Við náðum rosa vel saman og hann bauð mér að koma og horfa á formúluna daginn eftir. Ég hef engan áhuga á formúlu en sagði samt já. Núna erum við búin að vera saman í 1½ ár og búum saman.“ Áróra bætir við að Tommaso sé frá Flórens og þangað fóru þau seinasta sumar. „Þetta er einn fallegasti staður sem ég hef komið á. Fjölskyldan hans er yndisleg og tók rosa vel á móti mér.“

Hvað var fyrsta orðið sem þú kenndir honum í íslensku? „Ætli það hafi ekki verið elska þig, eða kannski sæti minn/sæta mín. Núna getur hann alveg sagt heilu setningarnar!“

Ertu búin að gefa honum íslenskt nafn? „Hann er oft kallaður Tommy þannig að ég kalla hann oft bara Tomma.“

Þú nefnir að þú vinnir sem þjónn á Levi, hvernig staður er það? „Þetta er svona fine-dining veitingastaður. Við fáum alls konar kúnna, allt frá fólki sem er kannski að fagna af einhverju sérstöku tilefni til efnaðs fólks sem kemur bara í kvöldmat. Það koma af og til einhverjir frægir, ég hef m.a þjónað Mads Mikkelsen, módelinu Monu Tougaard og Alfreð Finnboga.“

Hvernig myndir þú lýsa venjulegum degi hjá ykkur? „Dagarnir eru rosa mismun-andi hjá okkur, ég fer í skólann og vinn flesta daga. Sunnu-dagar eru svolítíð heilagir hjá okkur, þar sem við erum oftast bæði í fríi. Okkur finnst voða gott að sofa út, þannig við vöknum í rólegheitunum, bökum stundum pönnukökur eða borðum bara morgunmat. Við förum stundum í göngutúr eða förum saman í ræktina. Annars slöppum við líka oft af eftir langa viku. Við förum oft og fáum okkur sushi eða pöntum pizzu og horfum á mynd.“

Hver er hápunktur dagsins? „Það er örugglega þagar við förum að sofa. Dagarnir okkar eru mjög ólíkir þar sem ég vakna snemma til að fara í skólann og hann kemur seint heim úr vinnunni. Þannig að það er alltaf besti tíminn þegar við kúrum uppi í rúmi og tölum um daginn okkar.“

Í Kaupmannahöfn er ágætis neðanjarðarlestakerfi, Metro. Notarðu það mikið og er rétt að það sé ekkert mál að svindla sér inn í lestirnar? „Ég nota Metro rosalega mikið. Jú, ég mæli ekki með því að svindla sér inn í lestina. Er búin að fá nokkrar sektir, það er ekki gaman. Það er reyndar búið að blokka mig frá miðakaupum vegna þess að ég svindlaði mér svo oft í Metro þegar ég var nýflutt hingað. En ég lærði mína lexíu og kaupi mér nú alltaf mánaðarpassa.“

Þú hefur alltaf verið á kafi í tónlist. Hvernig gengur að sinna tónlist í Köben? „Ég hef því miður ekki jafn mikinn tíma og ég vildi til að sinna tónlistinni. En ég er með Taylorinn minn hérna heima og reyni að spila og semja þegar ég get.“

Hvað eru Rolling Stones fyrir þér? „Rolling Stones er uppáhaldshljómsveitin mín og pabba. Ég man þegar ég var lítil þá horfði pabbi oft á myndbönd af gömlu rokkstjörnunum eins og við kölluðum þá. Þegar ég var um 16 ára byrjaði ég svo sjálf að hlusta á þá og það er eins og nýr heimur hafi opnast fyrir mér, enda átti ég um 50 ár af tónlist inni til að hlusta á! En þetta er ekki bara tónlist heldur líka eitthvað sem ég tengi við pabba og mér þykir svo vænt um það. Núna er ég líka búin að láta tattooa logoið þeirra á mig!“

Hefurðu farið á tónleika með Stones? „Árið 2017 fórum við á Stones hérna í Danmörku og það eru stærstu tónleikar sem ég hef farið á, það voru um 45.000 manns í salnum. Við vorum kannski 5-6 metra frá þeim, það var svo geggjuð upplifun, og alveg rosalegir tónleikar. Ég man þegar við bókuðum miðana, þá fór ég að (há)gráta af gleði yfir að hafa náð miðum því ég trúði því ekki að ég fengi í alvöru að sjá þá live. Enda hélt ég að þetta væri minn síðasti séns að sjá þá á tónleikum. Reyndar eru þeir enn að túra í dag, átta árum seinna – hversu geggjaðir!? Ég næ kannski miðum á næstu tónleika líka.“

Hvað er best við að búa í Kaupmannahöfn og hver er uppáhalds staðurinn þinn í Köben? „Sumarið í Köben er það langbesta. Það er ekkert betra en að sitja í sólinni og kannski fá sér einn öl. Nú bý ég á Islands brygge og það tekur mig um fimm mínútur að hjóla út á bryggjuna þar sem maður getur hoppað út í vatnið. Það er líklega uppahaldsstaðurinn minn í allri Köben. Að fljóta í sjónum við Islands Brygge.“

Er Danir í alvöru ligeglad og hvað tala þeir um – varla veðrið? „Það er rosalega afslöppuð stemning hérna, Danir eru einmitt rosa ligeglad. Þeir vilja helst tala um FCK vs. Brøndby [fótboltaliðin] og hvenær þeir geta fengið sér bjór í sólinni næst.“

Hvað gerir þú í frístundum? „Það er rosa misjafnt en er mikið með vinum, fer í ræktina, hringi i foreldra mína eða systkini, fer i göngutúra eða eyði tíma með Tommaso.“

Mér skilst að þú sért bjartsýn að eðlisfari. Ertu til í að segja lesendum frá því þegar þú fluttir hnífasett með þér í handfarangri til Köben? „Það er skemmtileg saga,“ segir Árórar hlægjandi. „Jörundur, litli bróðir minn, gaf mér ostahnífasett í jólagjöf í fyrra. Ég, fátæki nemandinn sem ég er, tímdi ekki að kaupa stóra tösku þannig að ég var bara með handfarangur. Þegar ég fór svo í gengum security á flugvellinum var taskan mín stoppuð og ég var beðin um að koma og sjá einhverja röntgenmynd af því sem væri í töskunni og var spurð hvað þetta væri. Ég svara: „Þetta er svona ostasett.“ Þau anda léttar og segja nú okey. Þá missi ég út úr mér; „Já, eða svona ostahnífar...“ „HNÍFAR!?“ svarar konan. Þá segi ég aftur: „Ha, já nei, svona ostasett...“ Allavega þá komst ég í gegn með ostahnífana og nota þá bara mjög mikið.“

Þú minntist á í upphafi að þú starfar fyrir Bláa krossinn. Hvað gera þau samtök? „Ég vinn sem sagt á athvarfi heim-ilislausra hjá Bláa krossinum sem eru kristin hjálparsamtök líkt og Rauði krossinn. Ég myndi samt kannski frekar lýsa þessu eins og húsnæði fyrir heimilislausa sem býr þarna til lengri tíma. Fólki sem er heimilislaust og á við fjöl-þættan vanda að stríða, er hjálpað að komast aftur út í lífið, fá vinnu og eigin íbúð. Þetta getur verið krefjandi en alveg rosalega gefandi líka og ég alveg elska að vinna þarna.“

Hvers saknar þú mest að heiman? „Fjölskyldunnar, ekki spurning. Reyndar sakna ég líka náttúrunnar og fjallanna.“

Gætir þú deilt einhverri sniðugri eða eftirminnilegri sögu frá dvöl þinni erlendis? „Fyrsta sumarið sem ég bjó hérna úti var ég með vinkonum mínum, Önnu Margréti sem var í heimsókn, og Önnu Sóley sem bjó hérna úti, í Metró. Við vorum ekki með gildan miða þannig við vorum bara á varðbergi ef það kæmi miðavörður inn. Svo missum við auðvitað athyglina og förum eitthvað að spjalla og þá kemur einmitt vörður inn og biður okkur um miða. Ég segi við stelpurnar að við ættum bara að reyna að hlaupa í burtu, en þegar við stóðum upp hlupum við beint í fangið á miða-verðinum. Það var ekkert hægt að komast hjá því, þannig við tókum á okkur sektina. Vörð-urinn rétti mér skrifblokkina sína til að skrifa niður nafn, kennitölu o.s.frv. Ég var svo pirruð að hafa fengið þessa 15.000 krónu sekt að ég stal blokkinni hans svo hann gæti ekki sektað fleiri – eins og nútíma Hrói Höttur. Kjarni málsins er; kauptu bara miðann. Það kostar bókstaflega 500 kall.“

Feykir þakkar Áróru fyrir skemmtilegt spjall.

- - - - - 
Dagir í lífi brottluttrar Áróru birtist fyrir í Fermingar-Feyki 2025.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir