Samningaviðræður enn lifandi um yfirtöku á rekstri HS

Sameining heilbrigðisstofnana á Norðurlandi var til umræðu á fundi byggðarráðs Svf. Skagafjarðar í morgun en sveitarfélagið hefur átt í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku á rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Tilkynning ráðherra á ekki að hafa áhrif á samningaviðræður að sögn formanns byggðaráðs.

„Viðræðurnar eru ennþá lifandi og við vonum bara að þessi ákvörðun hafi ekki áhrif á þær. Það er þá ný stefna heilbrigðisráðuneytisins ef svo er, við höfum ekki fengið neinar meldingar um annað en að það sé ennþá í gangi samningaferlið,“ segir Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs í samtali við Feyki.

Stefán segir að í næstu viku megi vænta niðurstaðna úr vinnu sem fór í gang í kjölfar fundar með ráðherra í maí sl. og þá verði væntanlega boðað til annars samningafundar.

„Hann var búinn að gefa það út að hann myndi sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi en hann var engu að síður búinn að taka ákvörðun um að það að hann ætlaði í viðræður við okkur um yfirtöku á stofnuninni. Þær viðræður eru enn í gangi, þetta er engin breyting þar á í sjálfu sér.“

Brýnir fyrir stjórnvöldum að hlusta á og virða vilja íbúa

Byggðaráð ályktaði um málið á fundi sínum í morgun og ítrekaði mótmæli sín setningu reglugerðar heilbrigðisráðherra. Ályktunin í heild sinni er svohljóðandi:

„Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar ítrekar mótmæli sín og harmar setningu reglugerðar heilbrigðisráðherra um sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. Sameiningin er þvert gegn vilja íbúa Skagafjarðar, enda er algjör óvissa um hvaða þjónustu ný stofnun mun veita þeim.

Sveitarfélagið Skagafjörður er í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku á rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki með samningi við Sjúkratryggingar Íslands og mikilvægt er að setning reglugerðarinnar hafi ekki áhrif á þær viðræður, sem er ekki lokið.

Byggðarráð brýnir fyrir stjórnvöldum að hlusta á og virða vilja íbúa við setningu laga og reglugerða.“

Fleiri fréttir