Fékk fyrstu plötu HLH í fermingargjöf / DR. GUNNI

Að þessu sinni er það Gunnar Lárus Hjálmarsson úr Reykjavíkurhreppi, betur þekktur sem Dr. Gunni, sem tekst á við Tón-lystina. Doktorinn spilar á gítar, bassa og ukulele en til helstu tónlistarafreka sinna telur hann Prumpulagið og Glaðasta hund í heimi og að hafa verið í hljómsveitunum S.H. Draumur og Unun og reyndar ýmislegt fleira.

Gunni er alinn upp í Kópavogi en hver er þá tenging hans norður? „Pabbi er frá Skagafirði, bjó í Bakkakoti í Lýtingsstaðarhreppi. Við systkinin höfum tvisvar á síðustu tveimur árum farið á æskuslóðirnar með gamla með. Ég fíla Skagafjörð í botn. Reyni að komast þangað á hverju sumri og á enn eftir að fara upp á Mælifellshnjúk í almennilegu skyggni. Þegar ég fór upp sást ekki neitt fyrir þoku,“ segir hann

Árgangur: Er enn á lífi og ennþá í stuði.

Uppáhalds tónlistartímabil? Öll eru góð, en ætli mesta gróskan og framþróunin hafi ekki verið á tímabilinu 1964-1972.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég er að víkka út sjónarhornið og hef verið að hlusta á 78 snúninga plötur að undanförnu, s.s. dægurtónlist sem var á ferðinni fyrir rokk, sirka 1900-1955. Allskonar gott þar, djass, hawaii-tónlist, swing og ýmislegt. Ef lesendur vita af svona gömlum plötum, 78 snúninga, mega þeir endilega hafa samband, ef þeir vilja losna við þær.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Eiginlega engin tónlist sem ég man eftir. Eldri syskini voru eitthvað í dægurtónlist en foreldrarnir mjög lítið.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Man það ekki nákvæmlega, en örugglega eitthvað með Bítlunum, enda var Bítladella fyrsta dellan sem ég fékk. Svo fékk ég fyrstu plötu HLH-flokksins í fermingargjöf.

Hvaða græjur varstu þá með? Grundig skáp foreldra minna. Hann kom inn á heimilið 1976.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Never mind the bollock here's the Sex Pistols. Dagný systir gaf mér hana.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Eitthvað væmið drasl. Það eyðileggur þó ekki fyrir mér daginn, ég skipti bara um stöð. Ég læt ekki heldur bjóða mér gargandi auglýsingar. Ég er alltaf skiptandi um stöðvar í bílnum.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Til hamingju Ísland og sænska lagið með Loreen.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Pönk, japanskt popp og kyrjandi inúíta. Ég kemst allavega í stuð, mér er alveg sama um hina.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ljúfa Hawaii-tónlist og Hauk Morthens.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég væri alveg til í að sjá The Beach Boys á Hawaii. Lufsan kæmi að sjálfsögðu með.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Ég tók bílpróf þegar ég var 38 ára svo það hefur nú bara verið Rás 2 og X-ið.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Einu sinni langaði mig að vera Nick Cave en nú langar mig ekki til að vera neinn annar.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Viltu nammi væna með Fræbbblunum skipti mig mestu máli enda komu Fræbbblarnir mér á sporið. Ég sá að það var ekkert svo mikið mál að vera í hljómsveit og semja lög.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Let it happen
- Tame Impala
Tinder on the toilet - Páll Ivan frá Eiðum
100.000 - Úlfur úlfur
Body language - Pink Street Boys
Hellirinn bíður - Dj. Flugvél og geimskip 
Back and Back Again - Soffía Björg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir