Spennandi Jónsmessuhátíð um helgina
Um næstu helgi verður haldin hin árlega Jónsmessuhátíð á Hofsósi en þá verður margt um að vera í plássinu. Að sögn Kristjáns Jónssonar formanns undirbúningsnefndar hefur undirbúningur gengið vel og kominn á lokastig. Fyrsta atriði hátíðarinnar verður miðnæturhlaup sem hefst fimmtudaginn 14. júní kl. 22:00.
Þetta er í 10. skiptið sem Jónsmessuhátíðin er haldin á Hofsósi og var hún fyrstu árin haldin þá helgi sem nær var Jónsmessunni. Hin síðari ár hefur hún hins vegar verið fest á þriðju helgina í júní og hittist þannig á núna að sjálf Jónsmessan er á þeirri fjórðu.
Dagskráin verður með svipuðu sniði og undanfarin ár en margir dagskrárliðir hafa skapað sér fastan sess og draga að sér fjölda gesta. Meðal skemmtikrafta á hátíðinni má nefna að Jóhannes eftirherma verður á kvöldvöku á föstudagskvöld og Vinir Sjonna halda uppi stuði á stórdansleik á laugardagskvöldinu.
HÉR er hægt að sjá hina metnaðarfullu dagskrá Jónsmessuhátíðarinnar á Hofsósi
