Styðja ákvörðun ráðherra
Starfsfólk Rækjuvinnslunar Dögunar ehf. Á Sauðárkróki sendi fjölmiðlum yfirlýsingu í gær þar sem eindregnum stuðningi er lýst við ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa rækjuveiðar frjálsar. Þessi ákvörðun mun tvímælalaust auka atvinnu til sjós og lands, segir í yfirlýsingunni.
-Væntanlega mun þessi aðgerð auka framboð af hráefni og einnig auka líkur á að við getum farið að gera út á ný, segir Þröstur Friðfinnsson framkvæmdastjóri Dögunar. -Við höfum haft takmarkaðan aðgang að rækjukvóta og augljóst er að ef rækjuveiðar við Ísland aukast, mun það koma vinnslunum til góða í auknu hráefni, því það hráefni mun allt koma til vinnslu á Íslandi. Umfjöllunin hefur verið mjög einhliða og einnig nokkuð öfgafull, því töldum við rétt að benda á að lítið hefur verið talað fyrir hagsmunum vinnslunnar, nema þá með öfgafullum og hæpnum yfirlýsingum. Eingöngu hefur verið talað fyrir hagsmunum kvóta”eigenda”.
Þröstur segir að Dögun eigi smávegis rækjukvóta og muni væntanlega tapa honum eins og aðrir, en telur að meiri hagsmunir séu í bættu aðgengi að hráefni.
-Rækjustofninn þolir meiri veiði, en hátt olíuverð mun áfram takmarka veiðar. Það þarf ekki að fara lengra en að bryggju á Sauðárkróki til að finna skip rækjuútgerðar sem gafst upp eftir 2 túra í vor þ.e.Hallgrím BA. Ég tel því ekki líkur á því mikla kapphlaupi í rækjuveiðum sem menn hafa talað um og þeir sem hafa verið að veiða rækju undanfarið hafa auðvitað ákveðið forskot í þeim efnum.