Þörfin fyrir heimilislækna | Bjarni Jónsson skrifar

Bjarni Jónsson. MYND AÐSEND
Bjarni Jónsson. MYND AÐSEND

Að geta notið þjónustu heimilislæknis er ein af grunnþörfum okkar allra hvar sem við búum á landinu. Það er ekki síður mikilvægt að fólk hafi aðgang að föstum heimilislækni til að tryggja samfellu í þjónustunni. Þurfa ekki sífellt að bera sig upp við nýja lækna með mein sín, áhyggjur eða við heilsufarseftirlit.

Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð eru grundvallarmannréttindi. Hér á landi höfum við búið við traust opinbert heilbrigðiskerfi þar sem öll eiga sama rétt til þjónustu óháð efnahag og stöðu. Um það er þjóðarsátt.

Bið eftir heimilislækni

Það er því óásættanlegt að víða tekur mjög langan tíma að komast að hjá heimilislækni, látum þá vera föstum heimilislækni og sum virðast falla alveg á milli og mæta afgangi ef fast heimilisfesti þeirra er annað en aðsetur. Það er til að mynda staða sem margir námsmenn af landsbyggðinni finna sig í sem hafa sótt í nám á höfuðborgarsvæðinu. Það á einnig við aðra sem eru tímabundið staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru ótaldir þeir staðir á landinu eins og á Snæfellsnesi þar sem ekki er tryggt að læknar séu til staðar alla daga vikunnar eða vetrarfærð hamlar farands þjónustu.

Læknaskortur

Í grunninn er staðan sú að það er skortur á heimilislæknum. Of fáir leggja fyrir sig sérnám í heimilislækningum. Til að auka áhuga læknanema og nýliðun í heimilislækningum á Íslandi er brýnt að bjóða upp á gott starfsumhverfi.

Atriði sem heimilislæknir þarf að hafa þekkingu á er að greina og þekkja viðeigandi úrræði, svo sem að veita úrlausn á staðnum, eða vísa áfram til frekara mats og taka þátt í eftirliti og áframhaldandi meðferð eftir það. Á mörgum stöðum á landsbyggðinni þarf heimilislæknir auk þess stundum að meðhöndla sjúklinga sem við aðrar aðstæður eru lagðir inn á sjúkrahús eða vísað til sérgreinalæknis. Að sinna heimilislækningum á landsbyggðinni getur því verið sérstaklega krefjandi og við það bætist lítt fjölskylduvænt vaktakerfi og stífar bakvaktir.

Breyttar áherslur

Við þurfum að breyta áherslum í læknanámi þar sem aukin áhersla verði á heimilislækningar og þær fjölbreyttu áskoranir sem læknisþjónusta á landsbyggðinni bíður upp á. Hér þarf Landspítali háskólasjúkrahús taka frumkvæði, Sjúkrahúsið á Akureyri að fá aukið hlutverk.

Lausnin er ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi og aukinn einkarekstur. Við þurfum að gera það eftirsóknarverðara að sækja sérfræðinám í heimilislækningum og starfa sem heimilislæknar.

Bjarni Jónsson
Höfundur er þingmaður NV kjördæmis og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir