Langar þig í Salinn? Danslagakeppnin á Króknum endurtekinn

Enn á ný gefst fólki færi á að hlýða á danslögin sem kepptu í Danslagakeppninni á Króknum á síðustu öld og flutt voru í tilefni af því að 60 ár eru frá upphafi keppninnar. Ákveðið hefur verið að endurtaka tónleikana, sem slógu svo rækilega í gegn á Sæluvikunni á Sauðárkróki 2017 og síðasta vetur í Salnum Kópavogi, þar sem seldist upp á báða tónleikana.

„Vegna fjölda áskorana mætum við aftur í Salinn og flytjum ykkur fallegu skagfirsku danslagaperlurnar sem Haukur Þorsteins, Muni, Ninni, Svenni, Geiri, Steini, Gunnar Páll og fleiri gerðu ódauðlegar á Króknum,“ segir Hulda Jónasdóttir forsprakki tónleikanna en þeir fara fram 2. nóvember klukkan 20:30.

Söngvararnir Geirmundur Valtýsson, Pétur Pétursson frá Álftagerði, María Ólafsdóttir, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, Óli Ólafsson, Svavar Knútur og Sigvaldi Helgi Gunnarsson munu flytja dægurlagaperlur m.a eftir Eyþór Stefánsson, Guðrúnu Gísladóttur, Geirmund Valtýsson, Ragnheiði Bjarman, Þorbjörgu Ágústdóttur, Angantýssystkinin, Jón Björnsson frá Hafsteinsstöðum og marga fleiri.

Hljómsveitarstjóri og gítarleikari er Þórólfur Stefánsson, bassaleikari er Jón Rafnsson, Agnar Már Magnússon leikur á píanó og Halldór G. Hauksson á trommur. Kynnir er Valgerður Erlingsdóttir.

Í tilefni tónleikanna verður Feykir með laufléttan leik í samstarfi við tónleikahaldara. Birtar verða myndir af fólki fyrri tíðar og getur fólk krækt sér í miða á tónleikana í Salnum 2. nóvember með því að senda rétt nafn á netfangið palli@feykir.is.

Fyrsta myndin birtist í nýjasta Feyki og mun leikurinn endurtekinn í næstu þremur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir