Blikur á lofti - Leiðari Feykis

Askja eins og hún kom vísindamönnum fyrir sjónir í eftirlitsflugi með TF-SIF þann 16. febrúar sl. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt G. Ófeigsson)
Askja eins og hún kom vísindamönnum fyrir sjónir í eftirlitsflugi með TF-SIF þann 16. febrúar sl. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Benedikt G. Ófeigsson)

Árið 1918 var viðburðaríkt bæði hér á landi og víða annars staðar í heiminum,  segir á Vísindavefnum og eru orð að sönnu en í upphafi árs 1918 varð fyrst vart við mannskæðustu farsótt sem sögur fara af, spánska veikin, og gekk í þremur bylgjum. Sú fyrsta virðist hafa verið tiltölulega saklaus en um sumarið kom banvænna afbrigði fram sem lét verulega kveða að sér í ágúst. Þriðja bylgjan gekk svo yfir heimsbyggðina veturinn 1918-19.

Nú auðvitað minnumst við frostavetrarins mikla í upphafi ársins þar sem fimbulkuldinn réði ríkjum í janúar og er enn í dag talinn kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld og það sem af er þeirri 21. Ekki þótti náttúröflunum nóg komið þrátt fyrir það og settu af stað Kötlugos í október sem varð meðal stærstu Kötlugosa síðan land byggðist. Gosinu fylgdi jökulhlaup og gjóskufall var mikið.

Á Vísindavefnum segir jafnframt að ársins sé ekki síst minnst í sögunni fyrir það að heimsstyrjöldinni fyrri lauk en stríðið hafði staðið yfir í rúm fjögur ár. Heimsstyrjöldin raskaði mörgu í verslun og atvinnulífi Íslendinga sem þetta ár fékk einnig fullveldi og íslenska krónan þá með fastgengi 1:1 við dönsku krónuna. Ekki leið á löngu þangað til verð á útflutningsvörum féll og gjaldeyrisforði landsins tæmdist og fyrsta gjaldeyriskreppan varð að veruleika 1920 þegar landið komst í greiðsluþrot.

Margt er líkt í dag. Því miður hefur Covid-fárið ekki sýnt okkur almennilegt fararsnið enn þó afleiðingar þess séu smámunir á við spánsku veikina. Vonandi er ekki neitt til sem heitir þriðja bylgja Covid. Síðastliðinn desember var sá kaldasti í Reykjavík í rúm 100 ár, en desember 1916 var álíka kaldur og nú, segir á vef Veðurstofunnar.

Það hefur löngum verið sagt að Katla gjósi á 40 til 80 ára fresti þannig að löngu er kominn tími á hana. Reyndar er hún ekkert að hrófla við sér þessa dagana en það gerir frænka hennar aftur á móti, hún Askja, en mikil ísbráðnun hefur átt sé stað á Öskjuvatni sem bendir til hækkaðs jarðhita þar undir. Gífurlegt eldgos hófst þar 29. mars 1875 en öskufall frá því hafði mikil áhrif og átti sinn þátt í því að stór hópur fólks flutti til Vesturheims.

Nú er eitt ár liðið frá innrás Rússa inn í Úkraínu og ekki útséð hvernig þær hörmungar enda. Ekki er auðvelt fyrir aðrar þjóðir að koma að því með beinum hætti þar sem þá er talin hætta á að út brjótist heimstyrjöld, sú þriðja á einni öld. Og nú sá ég í einu dagblaðanna að samkvæmt nýrri greiningu hagfræðideildar Oxford-háskóla í Bretlandi er Ísland í mestri hættu á að verða fyrir húsnæðiskreppu og bankakreppu í kjölfarið á henni. Fullyrt hefur verið að hér á landi skelli fjármálakreppur á um það bil á fimmtán ára fresti, síðast 2008, fyrir réttum 15 árum.

Góðar stundir
Páll Friðrisson, ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir