Fuglavernd hvetur Landsnet og RARIK til að leggja raflínur í jörð

Í ljósi atburða í tengslum við nýlegt óveður vill Fuglavernd hvetja Landsnet og RARIK til að setja raflínur í jörðu. Ekki er einungis um mikilvæga hagsmuni manna að ræða, heldur einnig hagsmuni fuglalífs í landinu, segir í tilkynningu frá félaginu. „Þótt neikvæð áhrif raflína á fuglalíf hafi ekki verið rannsökuð með beinum hætti hér á landi, er vitað að slíkar línur hafa mikil umhverfisáhrif víða um heim vegna áflogs fugla.“

Í ályktun Fuglaverndar segir að í Bandaríkjunum hafi verið metið að raflínur drepi allt að 64 milljónir fugla á ári og 30% allra ungfugla hins spænska gamm-arnar, sem er á válista, drepist árlega vegna raflína, svo eitthvað sé nefnt.

„Líklegt er að íslenskir ernir verði einnig fyrir afföllum vegna raflína. Sem dæmi má nefna að tveir fullorðnir ernir hafa fundist slasaðir við loftlínu sem þverar botn Kolgrafafjarðar á Snæfellsnesi. Hvorugum tókst að bjarga, þrátt fyrir nokkurra vikna aðhlynningu dýralækna og fuglafræðinga. Öruggt verður að telja að neikvæð áhrif raflína á fuglalíf Íslands séu stórlega vanmetin.

RARIK hefur í auknum mæli sett línur í jörðu á undanförnum árum, en betur má ef duga skal. Kostnaður við að leggja línur í jörð fer óðum lækkandi, og hafa ber í huga að kostnaður við viðgerðir og úrbætur loftlína, eins og þörf er á eftir síðasta ofsaveður, hleypur á gríðarlegum fjárhæðum. Vegna loftslagsváar eru nokkrar líkur á að slík veður verði algengari.

Loftlínur standast ekki kröfur um afhendingaröryggi raforku, þær valda sjónmengun og drepa fugla. Því leggur Fuglavernd til að ráðist verði í heildarendurskoðun loftlína landsins með það að leiðarljósi að koma sem flestum þeirra í jörð.“

Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæði þeirra og telur um 1300 félagsmenn. Fuglavernd er aðili að samtökunum BirdLife International sem vinna að verndun fugla og náttúrusvæða í 120 löndum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir